Foreldrahandbók

Foreldrahandbók

Prentvæn útgáfa 

Leikskólinn í Stykkishólmi

VIRÐING - GLEÐI - KÆRLEIKUR 

Heimilisfang:
Leikskólinn í Stykkishólmi
Búðanesvegi 2
340 Stykkishólmi

Símar:

433-8130  (Vík)              Eldhús 4338134
433-8129 (Ás)                Skólastj. 4338128
433-8131 (Nes)
433-8191 (Bakki)

Vinsamlegast hringið ekki á Bakka og Vík á milli kl. 12 og 14 þegar hvíldin er.

Netfang leikskólans er leikskoli@stykkisholmur.is

Slóð heimasíðu er: http://www.stykkisholmur.is/leikskolinn 

Starfsfólk leikskólans:

Leikskólastjóri: Elísabet Lára Björgvinsdóttir, leysir Sigrúnu Þórsteinsdóttur af til 31.ágúst 2019.

Aðalheiður Sigurðardóttir, deildarstjóri Ási
Barbara Sabina Motyka, grunnskólakennari Vík
Bergdís Eyland Gestsdóttir, deildarstjóri Bakka (leikskólakennaranemi)
Berglind Eva Ólafsdóttir, leiðbeinandi Nesi
Berglind Ósk Kristmundsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri með sérkennslu.
Elín Helga Guðmundsdóttir, matráður

Eydís Ösp Þorsteinsdóttir, leiðbeinandi Ási

Hjalti Hrafn Hafþórsson leiðbeinandi Ási, BA í Heimspeki

Hulda Birgisdóttir, iðjuþjálfi – sérkennsla (vinnur okt-maí)
Joanna Szerszen, leiðbeinandi Vík
Karen Jónsdóttir, leiðbeinandi Ási (BS í sálfræði ) 
Karín Rut Bæringsdóttir, deildarstjóri Vík

Kristín Vigdís Williamsdóttir, leiðbeinandi Ási 
Magðalena Hinriksdóttir, deildarstjóri Nesi
María Jónasdóttir, afleysing
Nanna Einarsdóttir, leiðbeinandi Ási
Ólafur Ingi Bergsteinsson, leiðbeinandi Nesi (leikskólakennaranemi)
Ólöf Edda Steinarsdóttir, leiðbeinandi Vík
Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir, ræsting
Rúna Ösp Unnsteinsdóttir, aðstoðar á Vík, Nesi og Ási
Sigurdís Gísladóttir, aðstoð í eldhúsi / leiðbeinandi Vík
Sigríður Sóley Þorsteinsdóttir, leiðbeinandi Bakka
Særós Lilja Tordenskjold Bergsteinsdóttir, leiðbeinandi Nesi
Yasmin Aparecida de Lima, leiðbeinandi Bakka
Þórhildur Eyþórsdóttir, leiðbeinandi Nesi (BA í spænsku)

Rekstur

Leikskólinn er fyrir börn frá tólf mánaða aldri til grunnskólaaldurs. Rekstraraðili leikskólans er Stykkishólmsbær. Starfið fer fram á fjórum aldursskiptum deildum. Yngsta deildin Bakki, er fyrir 12. mánaða – 2 ára, Vík er fyrir 2 – 3 ára, Nes er fyrir 3 – 4 ára og elsta deildin, Ás, fyrir 4 – 6 ára börn. Bakki er í lausri kennslustofu við starfsmannainngang.

Leikskólinn starfar undir faglegri yfirstjórn Menntamálaráðuneytis og starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008. Menntamálaráðuneytið gefur út Aðalnámskrá leikskóla. Í henni eru markmið og leiðir sem leikskólar starfa eftir, en útfæra eftir eigin stefnu og áherslum. Í lögum um leikskóla segir m.a. “Leikskólinn skal í samráði við foreldra eða aðra forráðamenn veita börnum á leikskólaaldri uppeldi og menntun.”

Nánast enginn biðlisti er í leikskólann, en vegna skipulagningar á starfinu eru foreldrar beðnir um að huga að umsóknum í tíma. Einnig getur þurft að jafna fjölda barna á milli deilda, vegna mis stórra árganga, svo deildirnar eru ekki alltaf hreint aldursskiptar.

Aðaláherslur

Meginmarkmið með leikskóla skal vera ,,að búa börnum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi.” Leikskólinn er réttur barna, en val foreldra. Stefna Leikskólans í Stykkishólmi er að vera með öflugt og metnaðarfullt starf sem styrkir sjálfstraust og trú barna á eigin getu, styrkir sjálfsmynd þeirra og stuðli að því að þau verði virkir borgarar í lýðræðissamfélagi sem ber virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru. Litið er á börn sem virka, hugmyndaríka og skapandi einstaklinga sem taka öflugan þátt á sínum forsendum í lærdómssamfélagi leikskólans og byggir upp þekkingu sína í samvinnu við fullorðna og önnur börn.

Leikskólinn styðst við kenningar margra fræðimanna eins og Jean Piaget, John Dewey og Lev Vygotsky. Félagsleg hugsmíðahyggja er m.a. kennd við þessa fræðimenn en hún leggur m.a. áherslu á að barnið sé virkt í þekkingarleit sinni og að það læri meira og betur í samvinnu við aðra en eitt og sér. Tekið er tillit til reynslu og þekkingar og námsumhverfið þarf að vera auðugt, hvetjandi og opið. Hlutverk kennarans er að styðja, hvetja og leiðbeina, skapa gott námsumhverfi og vera góð fyrirmynd. Leikskólinn tekur einnig mið af fjölgreindarkenningu Howard Gardners og unnið er eftir könnunaraðferðinni sem er undir áhrifum Reggio Emilia.
Sjá nánar í skólanámskrá leikskólans (2018) sem aðgengileg er á heimasíðu leikskólans.

Opnunartími og vistgjald

Leikskólinn er opinn frá kl. 7:45 – 16:30 alla virka daga. Kl. 7:45 er tekið á móti börnum á Bakka, Vík og Nesi. Lokað er á aðfangadag og gamlársdag. Í boði er sveigjanlegur vistunartími, 4 – 9 1/4 tímar á dag. Vistunartími hvers barns er sá sami alla daga vikunnar. Eftirtaldir vistunartímar eru í boði, en unnt er að athuga með aðra möguleika ef brýn nauðsyn krefur.

Frá klukkan:     Til klukkan:
   7:45                   12:00
   8:00                   12:15
   9:00                   13:00
   9:45                   14:00
   10:00                 14:15
   15:00
   16:00
   16:15
   16:30

Mikilvægt er að sá vistunartími sem samið er um sé virtur. Starfsfólk skráir komu- og brottfarartíma barnanna í leikskólakerfið Karellen.

Uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við mánaðamót eða miðjan mánuð. Systkinaafsláttur er 50% af vistgjaldi annars barns, 100% af vistgjaldi þriðja barns og 40% afsláttur er til einstæðra foreldra. Ef breyta á vistunartíma barnsins, verður sú breyting að gilda í minnst þrjá mánuði og vera gerð með a.m.k. hálfs mánaðar fyrirvara. Allar breytingar eru skriflegar og gerðar hjá leikskólastjóra eða í gegnum íbúagátt á stykkisholmur.is. Ef farið er ítrekað fram yfir vistunartíma er innheimt sérstaklega fyrir það .

Starfið

Leikskólinn í Stykkishólmi leggur í starfi sínu aðaláherslu á umhverfis- og náttúruvitund og sköpun og læsi í víðum skilningi. Virðing-gleði-kærleikur eru gildin sem einkenna samskipti og allt starf leikskólans. Leikskólinn vinnur með Vináttu-forvarnarverkefni Barnaheilla fyrir börn frá þriggja ára aldri á Ási og Nesi.

Dagskipulagið er örlítið breytilegt eftir deildum, en heildar ramminn er sá sami. Sjá má skipulagið fyrir framan hverja deild og á heimasíðunni. Helstu stundir í dagskipulagi eru ýmsir hópatímar og val. Auk þess vinna elstu börnin í sérstökum skólastundum, í nánu samstarfi við Grunnskólann. Samverustundir með lestri og söng koma einnig fyrir nokkrum sinnum yfir daginn á hverri deild.Í hópastarfi vinna börnin í hópum sínum að ákveðnum verkefnum sem ná yfir langan tíma. Undanfarið hefur verið unnið með þemað ,,Náttúran og við”, í smærri sem stærri verkefnum sem geta jafnvel varað yfir heilan vetur. Inn í þetta fléttast ýmsir þroskaþættir og börnin þjálfa bæði huga og hönd. Yfirleitt er svo endað með sýningu eða opnu húsi um vorið. Námsefnið Lubbi finnur málbein er áberandi í hópastarfinu.

 

Kennsluaðferðin sem unnið er eftir í hópastarfi, sérstaklega á elstu deildinni, er svokölluð könnunaraðferð (Project approach). Hún byggir á þrepaskiptingu, upphafi, miðbiki og þemalokum. Með aðferðinni er leitast við að samþætta öll námssvið leikskólastarfsins, læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menningu, svo úr verði heilsteypt vinna. Aðferðin gerir ráð fyrir virku námi barnanna, þ.e. námi þar sem lært er af reynslunni, með því að framkvæma. Börnin eru hvött til frumkvæðis í vinnu sinni og að nota eigin virkni til þess að byggja upp og bæta við þekkingu sína, undir leiðsögn og hvatningu þeirra fullorðnu. Gert er ráð fyrir því að nám sé mun líklegra til árangurs ef áhugi barnanna ræður ferðinni. Áhugahvötin spilar því stórt hlutverk. Það að börnin hafi ákveðið val um viðfangsefni, innan þess sviðs sem unnið er á, er talið eitt af lykilatriðum að því að vekja áhuga barnsins fyrir náminu. Vinnan er ferli sem felst í því að spyrja og rannsaka.

 

Á yngri deildunum hefst þróun í átt að könnunaraðferðinni með ,,könnunarleiknum” sem nefnist á ensku “Heuristic Play with Objects”. “Heuristic” er að uppruna gríska orðið “eurisko” sem þýðir að uppgötva eða öðlast skilning á. Þessi merking lýsir nákvæmlega því sem börnin eru að gera í þessum leik. Hlutirnir sem börnin fá í könnunarleik eru alls konar hversdagslegir hlutir og ílát s.s. stórar dósir, kökubox, öskjur úr pappa eða tré, þvottaklemmur úr tré (gamaldags, ekki með gormi), ullardúskar, rör og pappahólkar, könglar, skeljar og margt, margt fleira. Það er ekki nýtt að börn leiki sér með það sem við köllum verðlaust efni en hér er á ferðinni sérstök útfærsla á því að nálgast efniviðinn með ákveðinn tilgang í huga.

 

Val-flæðival er á hverjum morgni innan deildar á Ási og að hluta til á Nesi. Á miðvikudögum eftir hádegi opnast deildirnar og flæðival tekur við. Flæðival er einnig fyrsta föstudag í mánuði fyrir hádegi. Valið er umgjörð um frjálsan leik barnanna. Þar geta börnin valið um ýmis svæði og viðfangsefni og æfast í því að standa við sitt val.

Málörvunartímar eru fastur liður á Ási og Nesi. Í þeim er unnið í litlum hópum með ýmis verkefni eftir aldri og getu barnanna. Þessir tímar eru í dagskipulaginu innan hópastarfsins. Einnig eru hópar í sérkennslu eftir greiningu og ráðgjöf frá talmeinafræðingi.

Sameiginlegar söngstundir allra deilda eru tvisvar í viku.

Leikskólinn hefur komið sér upp endurvinnslustefnu og hefur sett sér umhverfismarkmið. Leikskólinn hefur einnig forvarnarstefnu sem er hluti af forvarnarstefnu Stykkishólmsbæjar.

Umhverfismarkmið leikskólans í Stykkishólmi eru að:
1. kynnast umhverfi skólans á sem fjölbreyttastan hátt
2. nýta pappír sem best
3. flokka allt sorp
4. rækta grænmeti og fleira, t.d. kartöflur og krydd
5. fara sparlega með vatn og rafmagn

Leikskólinn gerði sér einnig umhverfissáttmála sem við keppumst við að halda í heiðri.

 

Umhverfissáttmálinn

Leikskólinn í Stykkishólmi ætlar að leggja sitt af mörkum til jarðarinnar. Það gerum við með því að tileinka okkur umhverfisvæna starfshætti og kenna börnunum að ganga vel um gróður í kringum okkur, gróðursetja og rækta í garðinum við leikskólann. Að endurnýta pappír, jarðgera matarleifar og nota umhverfismerkt hreinlætisefni.
Þannig læra börnin smátt og smátt að ganga vel um og nýta betur það sem við höfum og að ganga ekki á höfuðstól náttúrunnar.

Upplýsingamiðlun-Fréttir

Auglýsingar og skilaboð til foreldra eru hengd á töflu í forstofum eða á útihurðir. Skilaboð frá foreldrafélaginu eru einnig hengd á þessa staði (sjá einnig facebook síðu Foreldrafélags Leikskólans í Stykkishólmi sem stjórn félagsins sér um). Gott er að skoða töflur reglulega til þess að fylgjast með því sem er að gerast. Einnig má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og skilaboð fyrir framan deildirnar, matseðla, hópaskiptingar og fleira sem viðkemur hverri deild. Skilaboð eru einnig send í tölvupósti og einstaklings skilaboð í gegnum Karellen. Leikskóladagatal, viðburðardagatal og tilkynningar koma bæði á heimsíðuna og í Karellen. Foreldrar geta einnig komið skilaboðum áleiðis með tölvupósti og Karellen. Á heimasíðunni okkar, leikskoli.stykkisholmur.is má einnig sjá nýjustu fréttir, myndir, stefnur og fleira.

Aðlögun

Mikilvægt er að aðlögun gangi vel og að góð samvinna verði á milli foreldra og leikskóla. Það er forsenda þess að barninu líði vel í leikskólanum og það verði öruggt og geti þannig notið dvalarinnar í leikskólanum. Á yngri deildum Bakka og Vík er þátttökuaðlögun og miðað er við að aðlögun taki 5 daga. Sum börn gætu þurft lengri tíma. Á eldri deildum er aðlögunin einstaklingsbundin og sniðin að hverju barna eftir aldri og reynslu. Í upphafi aðlögunar fá foreldrar aðlögunarskipulag frá deildarstjóra. Börnin koma með ljósmynd af sér að heiman til að merkja fatahólfið sitt með.

 

Aðlögun barna á Vík og Bakka – þátttökuaðlögun

Áður en barn byrjar í leikskólanum er foreldrum boðið á kynningarfund þar sem starf leikskólans er kynnt. Foreldrar koma einnig í stutt viðtal við deildarstjóra áður en barn byrjar.

Barnið þarf að fá góðan tíma til að kynnast leikskólanum og starfsfólkinu. Góð aðlögun hefur mikla þýðingu varðandi áframhaldandi dvöl barnsins. Á þessu tímabili kynnast barn og foreldrar starfsfólki leikskólans og starfsemi hans. Þátttökuaðlögun byggir meðal annars á þeirri trú að foreldrar yfirfæri eigin öryggiskennd og forvitni í þessum nýju aðstæðum yfir á börnin sín. Með því að foreldrar séu þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það nám og starf sem fram fer í leikskólanum.

Foreldrar eru inni á deild með börnunum og taka með beinum hætti þátt í daglegu starfi deildarinnar. Foreldrarnir fylgja börnum sínum í leik og starfi, skipta á og gefa þeim að borða. Þeir kynnast starfsfólkinu, öðrum börnum, foreldrum og starfinu í leikskólanum. Markmið þátttökuaðlögunar er að byggja upp trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks og er það grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi. Eftir því sem foreldrar kynnast starfsfólki leikskólans því meiri líkur eru á því að gott samstarf myndist þar sem kjarninn er alltaf sá sami, samstarfið snýst um barnið sjálft, þarfir þess, vellíðan og framfarir.

Foreldrar eru alveg með börnum sínum í þrjá daga, byrjað er stutt og tíminn síðan lengdur eftir því sem líður á vikuna. Á fjórða degi kveðja foreldrar börn sín að morgunmat loknum og á fimmta degi er kvatt fljótlega eftir að komið er með þau. Í aðlögunarviku eru börnin aldrei lengur en til 15 og mælt með því fyrstu vikuna á eftir. Nánari tímasetningar eru á aðlögunarskipulaginu sem foreldrar fá afhent í fyrsta viðtali.

Mikilvægt er að minna á trúnað og þagnarskyldu og eru GSM símar ekki leyfilegir á deildunum.

 

Fjarvistir og veikindi

Nauðsynlegt er að foreldrar láti vita um fjarvistir barnanna, hvort sem er vegna veikinda eða annars. Það er til þess að auðvelda skipulagningu á starfinu, hafa aukna yfirsýn yfir fjölda barna og auka þar með öryggi þeirra. Í leikskólanum er boðið upp á að hafa börnin inni í tvo daga eftir veikindi ef þörf er á. Ef barnið veikist meðan það er í leikskólanum er hringt í foreldra, svo þeir geti sótt barnið. Foreldrar geta hringt, sent tölvupóst eða sent skilaboð í gegnum Karellen.

Leikskólataskan / fatahólfin

Nauðsynlegt er að hafa tösku með aukafötum í leikskólanum. Þó barnið sé löngu hætt með bleiu geta orðið óhöpp, þau hellt ofan á sig, blotnað við útiveru og þ.h. Gott er að vera með inniskó og allan algengan skjólfatnað, s.s. útigalla, pollaföt, leista, vettlinga, húfur og skófatnað eftir veðri. Yfirfarið því töskuna reglulega.

Til að koma í veg fyrir fatarugling er nauðsynlegt að merkja föt barnanna vel, skrifa á þau með fatatússi eða sauma í þar til gerða borða með nafni barnsins.

Við biðjum foreldra vinsamlegast að koma ekki með,,buxnableiur“ á börnin í leikskólanum.

Foreldrar eru beðnir um að aðstoða við að laga til í fatahólfi barna sinna í lok dagsins. Á föstudögum þarf að tæma öll fatahólf. Það er nauðsynlegt til þess að hægt sé að þrífa hólfin vel og einnig gott tækifæri fyrir foreldra til þess að yfirfara leikskólatöskuna.

 

Matmálstímar

Í morgunmat er boðið upp á hafragraut með ýmiskonar meðlæti og lýsi. Morgunmatur er kl. 8:15 og verða börnin á Vík og Bakka að vera komin þá ef þau ætla að fá morgunmat. Morgunmaturinn er til kl. 8:45 á öllum deildum því þurfa þau börn sem koma síðar en það að vera búin að borða morgunmat áður en þau mæta í leikskólann. Á Vík og Bakka er skráð í Karellen hvernig börnin borða morgunmatinn.

Ávaxtastund er á öllum deildum um kl. 10.

Í hádeginu er boðið upp á heitan mat. Með matnum er grænmeti/salat og vatn eða mjólk. Í eftirmat eru alltaf ávextir. Matseðill er á upplýsingatöflum við deildir. Hann má einnig finna á heimasíðunni og á Karellen. Ef börnin eru ekki komin fyrir kl. 11:00 og ekkert verið látið vita, er ekki gert ráð fyrir þeim í hádegismat. Allar deildir stefna að því að skrá í Karellen hvernig börnin borða í hádeginu.

Í síðdegishressingu, sem ýmist er kl. 14:30 eða 15:00 eftir deildum, er ýmist brauð eða ósætt kex og álegg og ávextir á eftir. Bakki og Vík skrá í Karellen hvernig börnin borða í síðdegishressingu.

Börnin eru hvött til sjálfshjálpar eftir því sem aðstæður leyfa og stefnt er að því að endurvinnslustefna leikskólans endurspeglist í matmálstímum, með því að flokka afgangana og setja á viðeigandi stað, sumt fer í hænur og annað í brúnu tunnuna.

Lyf

Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema til komi vottorð frá lækni um að lyfjagjöf sé nauðsynleg þann tíma sem barnið dvelur í leikskólanum.

Foreldraviðtöl /foreldrafundir

Foreldrafundir eru að jafnaði í byrjun skólaárs og oftar ef þurfa þykir. Þeir eru ætlaðir til kynningar og fræðslu fyrir foreldra og góður grunnur til að byggja samstarf heimila og leikskóla á þar sem skipst er á skoðunum og hugmyndum.

Boðið er upp á foreldraviðtöl í september þar sem foreldrar og kennarar fara yfir áhugamál, líðan og stöðu barnsins. Gerð er einstaklingsnámskrá sem endurmetin er í foreldraviðtali í maí. Að öðru leyti er starfsfólk tilbúið til að hitta og ræða við foreldra þegar þeir óska.

Starfsdagar

Leikskólinn á fjóra heila skipulagsdaga á ári þá er leikskólinn lokaður. Auk þess eigum við tvo hálfa daga en þá er leikskólinn lokaður frá kl 12:00. Þessir dagar eru merktir inn á leikskóladagatalið og auglýstir sérstaklega. Þá er starf leikskólans skipulagt til langs tíma, fengið námskeið eða farið yfir eitthvað efni sem tengist starfsemi leikskólans. Starfsmenn hafa einnig farið í náms- og kynnisferðir erlendis.

Sumarlokun

Leikskólinn er að öllu jöfnu lokaður í 24 virka daga yfir sumartímann, þá fara börn og starfsfólk í sumarfrí. Tíminn er notaður til hreingerningar á húsnæði og einnig til viðgerða og annarra framkvæmda sem ekki er hægt að gera á meðan börnin eru í skólanum.

Ljósmyndir

Mikið er tekið af ljósmyndum í leikskólanum af börnunum við leik og störf, m.a. stafrænar myndir sem settar eru á heimasíðuna og á Karellen. Það kemur fyrir að myndir úr starfinu birtast einnig á heimasíðu Stykkishólmsbæjar, í Stykkishólmspóstinum eða Skessuhorninu. Ef foreldrar vilja alls ekki að myndir af þeirra börnum fari inn á veraldarvefinn þá vinsamlegast látið leikskólastjóra vita. Annað hvert ár kemur ljósmyndari og tekur hópmyndir.

Samstarfsaðilar

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga hefur séð um sérkennslu- og sálfræðiþjónustu fyrir leikskólann. Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá leikskólastjóra.

Gott samstarf er við grunnskólann, eins og kveðið er á um í lögum um leik- og grunnskóla. Tónlistarskólinn er einnig inni í því samstarfi. Samstarfið felur m.a. í sér sameiginleg verkefni skólanna, gagnkvæmar heimsóknir nemenda, auk samstarfs kennara og samnýtingar námsgagna. Vorskóli elstu barna leikskólans hefur verið í grunnskólanum undanfarin ár. Þar kynnast þau starfinu í grunnskólanum í þrjá daga. Auk þess fara elstu börnin í hljóðfærakynningu í tónlistarskólann í lok síðasta leikskólaársins og nokkrum sinnum á ári fáum við hljóðfæraleikara til okkar.

Leikskólinn á einnig gott samstarf við Amtsbókasafnið og Dvalarheimilið. Fara hópar leikskólabarna gjarnan í heimsóknir þangað.

Foreldrafélag

Við leikskólann er starfandi foreldrafélag, sem allir foreldrar eru sjálfkrafa aðilar að. Félagið fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og er aðstoðarleikskólastjóri fulltrúi leikskólans í stjórninni. Starfsemi félagsins hefur verið með ýmsum hætti, það hefur m.a. boðið upp á grill í Nýræktinni, jólaföndur, sleðaferð, leiksýningar, íþróttadaga og vorferð. Gjaldið í foreldrafélagið er núna kr. 370,- á mánuði. Aðalfundur er haldinn að hausti. Félagið heldur úti facebook síðu fyrir foreldra ,,Foreldrafélag Leikskólans í Stykkishólmi“ og á heimasíðu leikskólans ,,leikskoli.stykkisholmur.is“ á foreldrafélagið síðu þar sem sjá má stjórnarskipan hverju sinni, lög félagsins og fundargerðir.

Foreldraráð

Við leikskólann er starfandi foreldraráð sem er ráðgefandi fyrir leikskólann og eru helstu hlutverk þess eftirfarandi:
• Gefa umsagnir til leikskóla og leikskólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir er varða starfsemi leikskólans.
• Fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum.
• Hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.
Foreldraráðið á síðu á heimasíðu leikskólans þar sem sjá má skipan stjórnar hverju sinni auk fundargerða. Leikskólastjóri starfar með foreldraráði.

Afmæli

Haldið er upp á afmæli síðasta föstudag í mánuði og þá er haldið upp á afmæli allra þeirra barna sem hafa átt afmæli í þeim mánuði, leikskólinn sér um veisluföng. Á sjálfan afmælisdaginn er útbúin kóróna, sungið fyrir afmælisbarnið og það heiðrað á ýmsan hátt. Ekki er í boði að dreifa afmælisboðskortum í leikskólanum.

Jól og jólafasta

Undirbúningur jólanna er með hefðbundnu sniði. Það er föndrað, sungið og leikið og leitast við að skapa rólegt og afslappað andrúmsloft. Börnin útbúa jólagjöf fyrir foreldra sína og farin er kirkjuferð, sem er sameiginleg með 1 – 4 bekk grunnskóla og tónlistarskóla. Foreldrafélagið sér um jólaföndur þar sem hver deild kemur saman ásamt foreldrum sínum. Við kíkjum á jólastemninguna í bænum eftir því sem tækifærin gefast. Elstu börnin fara jafnan í jólaheimsókn á dvalarheimilið. Jólaball er haldið hér með helgileik sem elstu börnin leika. Búningarnir hafa verið notaðir við leikskólann frá því ,,elstu menn muna” en þeir eru saumaðir af St. Franciskussystrunum.

Aðrar hefðir

Haldið er upp á alþjóðlega Bangsadaginn sem er 27. október ár hvert. Þá er náttfatadagur og allir koma með uppáhalds mjúkdýrið sitt. Í kjölfarið á bangsadeginum hefjast þemavikur í nóvember sem einkennast af kærleiks- og vinaverkefnum.

Undanfarin ár hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu, 16. nóvember, með því að fara í heimsókn á bókasafnið eða að kynna fyrir börnunum íslenskar bækur á annan hátt.

Á bóndadaginn höldum við upp á þorrann. Feðrum, öfum eða öðrum karlmönnum sem skipa stóran sess í lífi barnanna er boðið til okkar á bóndadaginn til að smakka á þorramatnum.

Haldið er upp á konudaginn föstudaginn á undan með því að bjóða mæðrum, ömmum eða öðrum konum sem skipa stóran sess í lífi barnanna í vöfflukaffi.

Á öskudaginn hefur skapast hefð fyrir grímuballi og eru búningar barnanna gerðir hér í leikskólanum. Ekki er farið í grímugöngu út í bæ frá leikskólanum.

Opið hús er yfirleitt að vori, þar sem afrakstur vetrarstarfsins er sýndur.

Foreldrakaffi er í kringum dag leikskólans í febrúar, þar sem foreldrum er í upphafi dags boðið að staldra við, fá sér hressingu og spjalla áður en haldið er í amstur dagsins.

Í lok skólastunda í maí er farið í göngu upp á Gráukúlu, einskonar útskriftarferð og eru foreldrar velkomnir með. Formleg útskrift elstu barna úr skólastundum er einnig í lok maí. Þá koma elstu börnin og þeirra nánustu saman og fagna þessum áfanga í lífi barnanna. Börnin sýna eitthvað sem þau hafa unnið að og bjóða upp á hressingu. Þau fá svo afhentar möppur sínar og útskriftarskjal.

Þjóðhátíðardagar
Haldið er upp á þjóðhátíðardag Íslands með sumarhátíð og eins er haldið upp á þjóðhátíðardag Póllands og ætlunin er að bæta við fleiri þjóðum eftir því sem við á hverju sinni.

Ýmsar upplýsingar og reglur

Engir fastir,,dótadagar” eru í leikskólanum. Yngri börnin þurfa gjarnan að hafa með sér einhvern lítinn hlut sér til halds og trausts, aðallega fyrstu dagana. Með eldri börnin er æskilegast að þau komi ekki með dót en taki með sér bók til að lesa eða geislaplötu til að hlusta á, ef þau þurfa að taka eitthvað. Að öðru leyti er þetta á ábyrgð foreldranna og þau verða að taka ákvörðun með börnunum sínum. Leikskólinn tekur enga ábyrgð á leikföngum barnanna.

Vinsamlegast gangið vel um umhverfi leikskólans. Skiljið bílana ekki eftir í gangi á meðan þið komið með eða sækið börnin.

Vinsamlegast fylgið börnunum alla leið að deildinni þeirra eða yfirgefið þau ekki fyrr en starfsmaður hefur tekið við þeim.


Starfsmenn leikskólans bjóða ykkur velkomin til samstarfs og vonast til þess að leikskóladvölin verði ykkur ánægjuleg.

Við hlökkum til að kynnast ykkur !