Könnunarleikurinn á Vík

Á leikskólaþingi 2004 sat hluti af starfsfólki leikskólans fyrirlestur um ,,Könnunarleik" hjá Hildi Skarphéðinsdóttur, deildarstjóra leikskóladeildar Reykjavíkurborgar. Hildur er leikskólakennari að mennt og stundaði hún framhaldsnám í Skotlandi og kynntist þar hugmyndum tveggja enskra fræðimanna, þeirra Elinor Goldschmied og Sonia Jackson. Fram kemur í bók þeirra, “People under three”, sem kom út árið 1994 að lítið hafi verið skrifað um börn undir þriggja ára aldri fram að þeim tíma. Í gegnum árin hefur verið lögð meiri áhersla á að þróa og efla starfið með eldri börnunum í leikskólum. Var þessi fyrirlestur því kærkominn og kveikti áhuga hjá okkur á að innleiða Könnunarleikinn á Krílakot.

Með bréfi sem sent var heim til foreldra það ár var leikurinn kynntur og falast eftir aðstoð foreldra við efnissöfnun. Allt síðan þá hefur könnunarleikurinn skipað stóran sess í starfi yngstu barnanna.

Könnunarleikur nefnist á ensku “Heuristic Play with Objects”. “Heuristic” er að uppruna gríska orðið “eurisko” sem þýðir að uppgötva eða öðlast skilning á. Þessi merking lýsir nákvæmlega því sem börnin eru að gera í þessum leik. Með því að nota þetta óvenjulega orð er vakin athygli á því hve leikur barnanna er merkilegur og mikil reisn yfir honum. Börnin starfa af eigin hvötum ef þau fá viðeigandi hluti sjálf og fyrir sig sjálf, án þess að fullorðnir stýri þeim.
Þessi leikur er þekktur víða utan Englands og má þar nefna Skotland, Spán og Ítalíu, og hefur verið að færast í vöxt á sl. 2 árum að nota þennan leik hér á landi.
Hlutirnir sem börnin fá í könnunarleik eru ekki venjuleg plastleikföng úr búð. Þetta eru alls konar hversdagslegir hlutir og ílát s.s. stórar dósir, kökubox, öskjur úr pappa eða tré, þvottaklemmur úr tré (gamaldags, ekki með gormi), ullardúskar, rör og pappahólkar, könglar, skeljar og margt, margt fleira. Það er ekki nýtt að börn leiki sér með það sem við köllum verðlaust efni en hér er á ferðinni sérstök útfærsla á því að nálgast efniviðinn með ákveðinn tilgang í huga.
Eins og fram kom hér að framan stýrir hinn fullorðni ekki leiknum, en lykilatriði í könnunarleikjastund er að hann sé til staðar og með vakandi áhuga. Leikur sem barnið stjórnar sjálft felur í sér eigin umbun, þar sem hrós og athugasemdir eru óþarfar.
Könnunarleikjastund getur staðið í allt að 45 mínútur en þriðjung af tímanum þarf að nota til að taka saman. Tíminn, sem fer í tiltekt, er jafn mikilvægur tímanum sem fer í leik og er í raun framlenging á leiknum. Á meðan á leiknum stendur talar hinn fullorðni ekkert en í tiltektinni nefnir hann hlutina sem hann vill að barnið setji í hvern poka, og koma þá hugtökin þar inní eins og fyrir aftan, fyrir framan, undir, bakvið o.s.frv.

Tillögur að hlutum í Könnunarleik.

 1. Dósir af öllum stærðum
 2. Öskjur úr pappa eða tré
 3. Plastflöskur
 4. Ullardúskar
 5. Pappahólkar af ýmsum stærðum
 6. Keðjur af ýmsum stærðum og gerðum
 7. Hálsfestar
 8. Könglar
 9. Skeljar
 10. Eldhúsrúllustandur
 11. Hringir (t.d. gardínuhringir, plastarmbönd)
 12. Korktappar
 13. Tréhöldur (hnúðar)
 14. Hárrúllur
 15. Plaströr
 16. Tvinnakefli
 17. Þvottaklemmur (gamaldags án gorma)
 18. Lyklar
 19. Tunguspaðar úr tré