Skólastund

Skólastundir elstu barnanna 2018-19

 

Elstu börn leikskólans vinna að sérverkefnum í svokölluðum skólastundum einu sinni í viku. Náið samstarf er á milli kennara elstu barnanna í leikskólanum og 1. bekkjar grunnskólans til þess að sem mest samfella náist í nám þeirra. Hópaskiptingu og verkefni hverrar stundar má sjá neðar á síðunni.

Markmið skólastundarvinnu:

  • Að brúa bilið á milli skólastiganna og aðlaga börnin auknum kröfum í skólakerfinu, lengja úthald og einbeitingu.
  • Að börnin læri að vinna saman í hópi jafnaldra.
  • Að efla málvitund barna, auka orðaforða og málskilning.
  • Að efla stærðfræðiþekkingu barnanna og talnaskilning þeirra.
  • Að börnin læri vönduð og sjálfstæð vinnubrögð og öðlist lífsleikni.
  • Að börnin læri að taka tillit hvert til annars, bíða, hlusta, tjá sig í hóp og fari eftir fyrirmælum
  • Að börnin öðlist færni og öryggi í því að gera grein fyrir sér fyrir framan hóp.
  • Að börnin læri að skrifa og þekkja nafnið sitt, helstu form og hugtök, tölustafi frá 1-5, og læri rétt blýantsgrip.  

Leiðir:

Í skólastundum í vetur eru elstu börnin í tveimur hópum á miðvikudögum og fimmtudögum kl. 10 með sínum hópstjórum auk umsjónarkennara skólastundanna. Í skólastundum er lögð áhersla á fastar venjur í upphafi og enda stunda. Börnin setjast í hring, eftir að hafa dregið sér númer sem segir til um röðina, og eru boðin velkomin í skólastundina. Allir kynna sig, segja fullt nafn og síðar hvar þau eiga heima og hvenær þau eru fædd.  Börnin læra að hlusta og virða rétt þess sem talar, þau vita að röðin kemur að þeim og þjálfast í því að tjá sig fyrir framan hóp.  Verkefni dagsins er kynnt og farið með þuluna ,,Einn og tveir, inn komu þeir”. Þá setjast allir í sætin sín og vinna þau verkefni sem fyrir liggja hverju sinni.  Við endum svo yfirleitt stundina á að haldast í hendur og þakka fyrir skólastundina. 

     Í skólastundum vinna börnin með sérvalin verkefni sem byggja mikið á leik, vinnu með form, tölur, talningu, ýmiskonar greiningu og flokkun, og eru til þess ætluð að þjálfa undirstöðuþætti bæði  lestrar- og stærðfræðináms sem og nauðsynlega færniþætti. Námsáætlun þar sem viðfangsefni hverrar skólastundar er sett fram, er send út reglulega yfir veturinn og birt á heimasíðunni.

     Markvisst er unnið að því að aðlaga börnin að flutningnum á næsta skólastig. Í haustbyrjun fara þau í heimsókn í grunnskólann, ásamt kennurum sínum, þar sem skólastjóri tekur á móti þeim og kynnir fyrir þeim starfsemina. Þau fara tvisvar yfir veturinn í ,,skiptinemaheimsóknir” í 1. bekk í litlum hópum, en hópur 1. bekkinga dvelur þá í leikskólanum á meðan. Kennarar þeirra eru ekki með í þeim heimsóknum, en undantekning er þó gerð ef börn þurfa á stuðningi að halda.

Umsjón með skólastundum er í höndum Ellýjar og með eru hópstjórarnir Aðalheiður og Hjalti.

Verkefni skólastunda í janúar til apríl 2019

9. og 10. janúar. Talning og tölustafurinn 5 sérstaklega tekinn fyrir.
16. og 17. janúar.
Mælingar og talning.
24. janúar (báðir hópar saman).
Samanburðarhugtök (minna en, stærra en o.s.frv.). Raðað eftir stærð og unnið með hugtök eins og næst minnst, í miðjunni, lengst, styst o.s.frv.
30. og 31. janúar.
Vinna með mynstur og tölur.
4. febrúar.
Hópur 1 í Grunnskólann.
6. og 7. febrúar.
Áframhaldandi vinna með mynstur og tölur.
11. febrúar
. Hópur 2 í Grunnskólann
13. og 14. febrúar.
Fjöldi tákn og mynstur.
18. febrúar.
Hópur 3 í Grunnskólann
20. og 21. febrúar.
Fjöldi tákn og mynstur (frh.).
27. og 28. febrúar.
Öskudagsbúningavinna
7. mars (allir saman).
Talnaröðin. (skipulagsdagur og þessi tími frestast því)
13. og 14. mars.
Stöðvavinna með tölur: Ýmis verkefni með NUMICON og leir.
20. og 21. mars.
Stöðvavinna með tölur: Ýmis verkefni með NUMICON og leir.
27. og 28. mars.
Rannsóknarvinna – lítil könnun.
3. og 4. apríl.
Numicon ,,ratleikur”.
10. og 11. apríl.
Væntanlegur kennari barnanna í 1. bekk kemur í skólastund (með fyrirvara).

Þulan okkar: Tölurnar

Einn og tveir

inn komu þeir,

þrír og fjórir,

furðustórir,

fimm, sex, sjö og átta,

svo fóru þeir að hátta.

Níu, tíu, ellefu og tólf,

lögðu plöggin sín á gólf,

svo fóru þeir að sofa

og sína drauma lofa.

En um miðjan morgun

hún mamma vakti þá,

þrettán, fjórtán, fimmtán, sextán,

fætur stukku þeir á.

Svo fóru þeir að smala

suður fyrir á,

sautján, átján lambærnar

sáu þeir þá,

nítján voru tvílembdar

torfunum á,

tuttugu sauðirnir

suður við sel.

Teldu nú áfram

og teldu nú vel.