Hópastarf

Hópastarf á Nesi 

Hópastarf er þrisvar sinnum í viku frá einni klst. uppí eina og hálfa eftir aldri og getu barnanna. Í hópastarfi eru þrír hópar og skiptast þeir eftir aldri barnanna. Hóparnir haldast óbreyttir með sama kennara allan veturinn, þannig öðlast hvert barn öryggi og festu innan hópsins. Þema leikskólans í vetur verður "Náttúran og við" og ætlum við að vinna vítt og breytt eftir áhuga og getu barnanna.

Við byrjum og endum þemastundirnar alltaf eins, tökumst í hendur og bjóðum hvert annað velkomið í hópastarfið, syngjum ákveðið lag og í lok stundar gerum við eins, þökkum fyrir hópastarfið og syngjum ákveðið lag. Eftir því sem börnin eldast og þroskast lengist úthald þeirra, og hafa því eldri börnin tök á því að lengja þematímann sinn.

Hópastarfið skiptist í eftirfarandi: Þemavinnu, málörvun, lestur,  tónlist, frjálsan leik, útiveru/gönguferðir, Vináttu verkefni Barnaheilla, námsefnið um Lubba og málhljóðin, og kennslu á reglunum (græna höndin).

Svona gerum við:
Með því að hafa hópana litla og aldursskipta næst betri árangur í starfi og hver einstaklingur fær að njóta sín sem best. Við styðjumst við hugmyndafræði "könnunaraðferðarinnar" (sjá neðar á síðunni), sem byggir á áhuga barnanna, og að vekja forvitni þeirra. Við notum opinn, skapandi og náttúrulegan efnivið til myndsköpunar. Við höfum efniviðinn aðgengilegan og sýnilegan fyrir börnin, og virkjum þau til að safna efnivið, t.d. í vettvangsferðum og að heiman. Við höfum umhverfisstefnu leikskólans að leiðarljósi í öllu okkar starfi.

Þættir sem við viljum ná fram:
að börnin læri samvinnu og jákvæð samskipti í hóp
að börnin læri að hlusta á aðra og að hlustað sé á þau
að hvetja börnin til dáða og vekja hjá þeim forvitnina, sem er drifkrafturinn í öllu starfi þeirra
að börnin læri að tjá skoðanir sínar, hugmyndir og tilfinningar í orði og verki
að börnin kynnist og fái tækifæri að prófa sig áfram með mismunandi efnivið
að börnin læri að flokka og endurnýta pappír og pappa
að gera börnin meðvituð um náttúruvernd og virka þátttakendur í ferlinu

Könnunaraðferðin
Nafn aðferðafræðinnar lýsir henni nokkuð vel, að hluta að minnsta kosti, því hún byggir á áhuga barnanna, þ.e. hvað þau vilja kanna innan ákveðins ramma (þemasins). Aðferðin er þrepaskipt, í upphaf, miðbik og lok, og með henni er leitast við að samþætta öll námssvið einstaklingsins. Fyrst og fremst er reynt að þjálfa vitræna þætti, aðrir þroskaþættir fylgja þá með, vegna þess hve fjölbreytni verkefna og þeirra leiða sem farnar eru að markmiðum, er mikil. Yfirmarkmið aðferðarinnar er að mennta börn, efla ekki aðeins þekkingu og leikni, heldur einnig tilfinningar, siðgæði, viðhorf og fagurfræðilegt næmi. Þeir sem aðhyllast þessa aðferð telja að nám sé mun líklegra til árangurs ef áhugi barnanna ræður ferðinni. Áhugahvötin spilar því hér stórt hlutverk. Það að börnin hafi ákveðið val um viðfansefni, er talið eitt af lykilatriðum að því að vekja áhuga barnsins fyrir náminu. Vinnan er ferli sem felst í því að spyrja og rannsaka og getur tekið yfir, jafnt langan tíma sem styttri.
Fyrsta þrep miðast að því að finna út hvað börnin vita um efnið og hvaða reynsla býr þar að baki. Skoða þarf hvað börnin geta lært hvert af öðru og hvaða spurninga þau spyrja. Það er gert með sem fjölbreyttustu aðferðum. Umræður eru eitt af lykilatriðunum og því þarf að spyrja spurninga sem vekja þær. Í gegnum frjálsa sköpun og leik, tjá börnin einnig vitneskju sína. Bent er á að gott sé að skrá þekkingu barnanna upp í eins konar ,,vef”, til þess að fá yfirsýn yfir hana. Einnig hentar sú aðferð vel til þess að starfsmenn geri sér grein fyrir þeim leiðum sem færar eru í átt að markmiðunum.
Á öðru þrepi fer fram hin eiginlega rannsókn barnanna á viðfangsefninu jafnframt því sem umræðum og annarri vinnu af fyrsta þrepi er haldið áfram. Rannsóknarvinna getur verið vettvangsferðir og tilraunir með efnið, þar sem börnin leita svara við þeim spurningum sem hafa vaknað í fyrri vinnu, um leið og nýjar spurningar kvikna. Börnin vinna svo úr nýrri reynslu á sem fjölbreyttastan hátt og eftir eigin áhuga. Áhugi barnanna, aldur og reynsla ráða því hversu djúpt er kafað.
Á þriðja þrepi er vinnan metin og endurskoðuð. Ákveðnir þættir eru síðan valdir til kynningar og komið á framfæri við aðra, t.d. með sýningu myndverka og ljósmynda, upplestri, leikrænni tjáningu, söng, hljóðfæraleik og fleira.

                                                     

                                                 HÓPASKIPTING skólaárið 2020-2021

Regnbogahópur
Hópstjóri: Malla
Blómahópur
Hópstjóri: Berglind Eva/Rúna Birna
Krókódíla/kóngulóarhópur
Hópstjóri: Joanna/Óttar

Ása Bjarney
Bjarki Fannar
Breki Þór
Hallvarður Hinrik
Jakob Elí
Jósúa Helgi
Nína Elsa
Svandís Lilja
Tymon
Kristín Ósk
Daníel
Bjarndís Emma
Bæring
Camilla Rafney
Markús Nói
Rúnar Ingi
Benjamín Leó
Elena Zofia
Heikir Ísar
Snorri Freyr
Rökkvi Þór
Ísleifur Narfi
Hildur Birna
Fanney Lára
Aron Ingi