Hópastarf

Hópastarf á Vík  2016-2017


Sama þemað verður á öllum deildum skólans og það er þemað um Lubba sem finnur málbein en á Vík er aðaláherslan á líkamann, litina og Lubbi fléttast að einhverju leiti þar inn í.
Á Vík er þemavinnan sniðin að þroska og þörfum hvers barns. Hópstjóri hefur umsjón með hópastarfinu í litlum hópum þar sem börnin fá tækifæri til að vinna í hóp, fá leiðsögn og kynningu á efnivið leikskólans. Í vetur verða 3 hópar


Í vetur verður hópastarf 4 sinnum í viku og þar fléttast inn í frjáls leikur, könnunarleikur, föndur, tónlist, hreyfing og annað sem okkur dettur í hug.

Hugmyndafræði:
Á Vík höfum við verið að fikra okkur áfram í að tileinka okkur að einhverju leiti vinnu í anda Reggio Emilia. Louis Malaguzzi var hugmyndafræðingur leikskólastarfins í Reggio Emilia, samtímis því sem hann hafnaði þeirri hugmynd að hugmyndafræði gæti verið eign og að hún breyttist ekki. Eðli hugmyndafræðinnar væri að þroskast og taka breytingum. Hugmyndafræðin þróaðist áfram og efldist. Eftir honum er höfð þau orð að barn fæðist með hundrað mál en við tökum níutíu og níu frá barninu.

Malaguzzi var gagnrýninn á skólakerfið. Hann taldi að menning og skóli leituðust almennt við að aðskilja líkama og huga, þar sem kennt væri að hugsa án líkama og framkvæma án hugsunar. Hann taldi að leikurinn og vinnan, veruleikinn og draumurinn, vísindin og hugmyndarflugið, hið innra og ytra væri gert að andstæðum. Malaguzzi gagnrýndi vestræna menningu og skóla fyrir að afneita líkama og tilfinningum barnanna og upphefja kerfishugsun.

Malaguzzi leit á uppeldisfræði sem lifandi hugmyndafræði, sem fái kraft frá börnunum og sé í tengslum við raunveruleikann. Hann mælti gegn því að litið væri á uppeldisstarf leikskólanna í Reggio Emilia sem mótaða aðferð, það fælist frekar í sífelldum vangaveltum.

Malaguzzi leitaði víða fanga og byggist leikskólastarfið í Reggio Emilia meðal annars á hugmyndum Dewey, Piaget, Popper, Peirce og Vygotsky. Malaguzzi leit á menntun sem samfélagslegt ferli, hlutdeild í menningu og vildi sameina vísindi, listir, hugmyndaflug, líkama og sál. Hann taldi að eðli heilans væri að rannsaka „að láta hugsanir spyrja“ og taldi fráleitt að hægt væri að „taka afrit“ af þekkingu. Öll raunveruleg þekking, ólíkt því sem aðeins er lært til að kunna utanbókar, krefjist persónulegar upplifunar. Að nám án rannsóknar eða þróunar sé nám án áhuga.

Malaguzzi taldi kennsluaðferð fela meðal annars í sér, sameiginlegar uppgötvanir barna og kennara sem setja fram tilgátur og ræða saman um viðfangsefnið. Skólinn sé kerfi samskipta og víxlverkana á meðal þriggja aðalpersóna, barna, kennara og fjölskyldna. Skólanum beri að standa vörð um heildar velferð þessara þriggja hópa hann sé samfélag þar sem þeir deila hugmyndum, eiga samræður og samskipti.

Malaguzzi benti á hversu stórkostlega börn undrist yfir hlutum, þau séu eins og rannsakandi sem er í 100% starfi í þrotlausri sköpun atburða, hugmynda og kenninga, sem er aðal leið barnanna til náms og í að tileinka sér veröldina og lífið. Barn eigi rétt á og auðgist við að umgangast önnur börn, deila hugmyndum, skiptast á skoðunum og takast á við hluti sem þau geta einungis gert með öðrum börnum og fullorðnir geta ekki veitt þeim. Barn sem búi yfir slíku frelsi og skynji frelsið sem afl, þori að hugsa og framkvæma sjálfstætt. Frá fæðingu búi barnið yfir þekkingu og sé fært um að mynda hugsanir og viðbrögð. Barnið bíði ekki eftir leyfi til að hugsa! Börn séu að brjóta hugann um hugmyndir í tengslum við umheiminn og til þess nota þau mál – 100 mál. Hugsanir komi er þú leitar þeirra og þarft á þeim að halda.
Sare.is. sótt í október 2011. Slóð: http://www.sare.is/hugmynd/loris_malaguzzi/

Hann taldi að nám ætti að vera ánægjuleg reynsla þar sem börn taka virkan þátt í að afla fanga og túlka. Hann bendir einnig á að ekki sé sjálfsagt að barn læri það sem því er kennt, heldur sé námið að stórum hluta afleiðing framkvæmda og íhugana. Barn búi yfir þeim hæfileikum að vera sífellt að rannsaka og reyna að skilja umheiminn án þess að greina tilfinningar frá visku, vinnu frá leik, nauðsynlegt frá ónauðsynlegu.

Malaguzzi lagði áherslu á lýðræði, rétt einstaklingsins að vera einstakur/sérstakur. Samtímis er hver einstaklingur hluti af kerfi í skólanum og samfélaginu. Hvert kerfi er síðan tengt öðrum kerfum. Börn eigi rétt á að vera aðalpersónur eða viðfangsefni, um einstaklingsleg, lagaleg og félagsleg réttindi. Þess vegna eigi þau rétt á að vera viðurkennd sem virkir þátttakendur í að skapa eigin sjálfsmynd, sjálfstæði og hæfni. Þetta gerist í samskiptum við önnur börn, fullorðna, hugmyndir og hluti.

Hlutverk kennara:
Kennarinn er hluti af hópnum og virkar frekar sem hlustandi en fræðari. Eða eins og Malaguzzi sagði eitt sinn, leikskólakennari þarf stundum að vera stjórnandi, hönnuður, í forsvari, baksviðs og hvíslari. Kennari þarf að vera bæði ljúfur og ákveðinn, sá sem veitir spennu og sá sem er??? Í leikskólastarfinu í Reggio Emilia er ekki um eiginlegt „prógramm“ að ræða, leikskólastarfið fjallar frekar um viðhorf til barna og lífssýn.
Sare.is. sótt í október 2011. Slóð: http://www.sare.is/hugmynd/loris_malaguzzi/

Markmið:
Að barnið kynnist öðrum börnum deildarinnar og byrji að mynda félagsleg tengsl, læra að þekkja hvert annað og treysta hvert öðru. Barnið fær tíma til þess að aðlagast öðrum börnum deildarinnar og með hjálp kennara fær það hvatningu til þess að vera í leik og starfi með öðrum börnum. Barnið fær þjálfun og æfist í að vera hluti af stórum eða litlum hóp og grunnurinn lagður að samvinnu.

Að barnið öðlist tækifæri til að kynnast fjölbreyttum efnivið sem reynir á skynfæri þeirra. Kennarar sjá til þess að á deildinni sé fjölbreyttur efniviður sem býður upp á margar lausnir. Með aðstoð starfsmanna fær barnið að kynnast, rannsaka og prófa ýmsan efnivið í leik og starfi innandyra sem utandyra.

Að barnið fái tækifæri til að skapa og nota til þess ýmsan efnivið og að tónlist og myndlist verði virkur hluti af daglegu starfi deildarinnar.Með aðstoð kennara fær barnið tækifæri til þess að skapa eitt og sér eða í hóp, hvort sem er í leik, tónlist eða myndlist. Skynfærin notuð sem leið að sköpun og uppgötvun.

Að barninu skapist tækifæri til leiks og hreyfinga í ólíku umhverfi með ólíkan efnivið. Fái að rannsaka, skoða og gera tilraunir.Kennarar sjá til þess að barnið fái að njóta sín í leik og að leikurinn sé fjölbreyttur og fari fram á mismunandi stöðum með opinn og fjölbreyttan efnivið. Barnið fær þjálfun og æfist í að vera eitt í leik eða með öðrum.

Skráning:
Hugmyndafræði uppeldisfræðilegrar skráningar byggir fyrst og fremst á því að hlusta á raddir barna. Að fylgja hverju barni eftir í hópi annarra barna, að skoða styrkleika barna og nám. Til þess eru notuð ýmis tæki. Helst er notast við myndavélar og blöð. Á meðan börnin vinna og leika sér, taka leikskólakennara myndir, skrá hjá sér tilgátur og athugasemdir barnanna. Saman skoða þeir síðan það sem fram fór, bæði með öðrum kennurum en líka með börnunum. Sá andi sem ríkir er andi forvitni og rannsókna. Er andi þess að hver dagur sé nýttur undur, nýtt ævintýri. Uppeldisfræðileg skráning byggir á því að leikskólakennarar þjálfi næmni gagnvart atburðum daglegs lífs, leyfi sér að skoða það sama aftur og aftur í nýju og nýju ljósi. Að þeir geti skoðað sama hlutinn frá mismunandi sjónarhornum og þannig komið auga á nýjar víddir.
Sare.is. sótt í október 2011. Slóð : http://www.sare.is/hugmynd/skraningar/

Ef þið hafið áhuga á að fræðast nánar um Reggio Emilia viljum við benda ykkur á mjög áhugaverða síðu þar sem hægt er að lesa sig til um þessa stefnu http://www.sare.is/.