Annir hjá elstu nemendum leikskólans

Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá elstu nemendum leikskólans. Í lok apríl kom væntanlegur umsjónarkennari þeirra í 1. bekk, Sigrún Erla í skólastund til að kynnast hópnum og dagana 9. ? 11. maí fóru þau í vorskólann í grunnskólanum eftir hádegi. Þar fengu þau smá innsýn í það sem tekur við þegar farið er yfir á næsta skólastig í haust.
Við fórum í útskriftarferð á Gráukúlu í þrettánda skiptið 20. maí í blíðskaparveðri. Eins og áður var þetta gerlegt með ómetanlegri hjálp frá aðstandendum barnanna og góðvilja landeigenda sem hafa lánað okkur aðstöðuna á Hraunflötinni þegar niður er komið. Þeir fullorðnu voru fleiri en börnin í þetta sinn og allir fóru á toppinn.
Góður tími fór í að undirbúa og æfa fyrir útskriftarhátíðina sem haldin var 25. maí. Þar sýndu börnin fjölskyldum sínum dagskrá sem samanstóð af skuggaleikhúsi með hljóðfæraslætti og söng, auk þess sem þau buðu upp á léttar veitingar sem þau höfðu undirbúið. Í lokin fengu þau viðurkenningu frá leikskólanum og einnig vegna vorskólans. Börnin afhentu Sigrúnu Erlu mynd sem þau höfðu málað af sér og mun hún koma henni vel fyrir í stofunni þeirra í grunnskólanum og mun myndin væntanlega fylgja þeim næstu árin í GSS. Það eru 17 nemendur sem flytja sig úr leikskólanum yfir í grunnskólann þetta árið. Við óskum þeim góðs gengis og þökkum þeim og fjölskyldum þeirra fyrir gott samstarf og ánægjulegan tíma í leikskólanum. Sjá má myndir frá þessum viðburðum á myndasíðu leikskólans.