Saga leikskólans í Stykkishólmi

Það var í byrjun 4. áratugarins að leitað var til reglu St.Franciskussystra og þær beðnar um að taka að sér að reisa og reka sjúkrahús í Stykkishólmi. Þeirri málaleitan var vel tekið og þann 22. júní 1935 komu fyrstu St.Franciskussysturnar til Stykkishólms. Þá höfðu nokkur önnur sveitarfélög reynt að fá þær til sín, en án árangurs.

Systrunum var vel tekið, þó heimamenn sem fæstir höfðu séð klausturfólk áður, væru nokkuð óvissir um það hvernig bæri að umgangast slíkt fólk. Börnin voru þó fljót að taka við sér og fóru brátt að venja komur sínar í klaustrið, þar sem vel var tekið á móti þeim. Segja má að allir hafi notið góðs af þeim heimsóknum. Systurnar kenndu ungu stúlkunum að sauma og lærðu tungumálið af börnunum í leiðinni. Síðan varð það fastur liður hjá börnunum í Hólminum að fara til systranna á sunnudögum, stelpurnar í saumatíma en strákarnir unnu við smíðar og föndur. Þetta fyrirkomulag hélst alveg til ársins 1970, enda börnum þá farið að bjóðast meira til afþreyingar svo sem sjónvarpið.

Aðalvinna systranna var þó samt sem áður í tengslum við spítalann. Hólmarar höfðu byggt stórt svo þó nokkuð af húsnæðinu var ónýtt og reksturinn því dýr. Það varð því úr árið 1940 að systurnar tóku til sín í sumarvistun börn úr Reykjavík, að beiðni Rauðakross Íslands. Það samstarf hélst allt til loka síðari heimsstyrjaldar.

Sumardvalarvistunin var síðan tekin upp að nýju árið 1957 og enn voru það börn af Reykjavíkursvæðinu sem nutu góðs af sveitasælunni. Hér undu þau sér vel í snertingu við náttúruna fjarri skarkala borgarinnar. Það voru aðallega ungar stúlkur úr Hólminum sem störfuðu með systrunum við þessa vistun. Oft komu sömu börnin sumar eftir sumar. Þess eru meira að segja dæmi að dvalarbörn gerðust síðar starfsmenn systranna, bæði við sumardvalarheimilið og spítalann og jafnvel ílengdust hér. Þessi starfsemi var með hléum til ársins 1980 er hún lagðist endanlega niður.

En systurnar létu sér ekki nægja að reka sumardvalarheimilið. Því þann 7.október 1957 var Leikskóli St.Franciskussystra stofnaður. Hann starfaði á veturnar og var ætlaður börnum undir skólaskyldualdri. Jókst þessi starfsemi ört, frá því að vera 12 börn 1957 til þess að vera orðin 60 að tölu árið 1963. Þrengslin voru því orðin mikil og því var ráðist í það 1967 að byggja sérstakt hús samtengt spítalanum til að hýsa leikskólann. Í þeirri byggingu var leikskólinn þar til í janúar 2007.

Til að byrja með voru aðallega tvær systur sem sáu um leikskólann, Systir Harríet og Systir María Elísabet. En eftir að nýja byggingin var tekin í gagnið kom til landsins frá Belgíu uppeldismenntuð nunna, Systir Lovísa, og tók við rekstrinum. Almennum starfsmönnum fjölgaði einnig ört.

Um leið og sumardvalarheimilið var lagt niður 1980, var leikskólinn gerður að heilsársskóla. Hann var áfram rekinn af St.Franciskusreglunni en nú með fjárframlagi frá Stykkishólmsbæ. Það fyrirkomulag hélst allt til 1. ágúst 1997 er bærinn tók alfarið við rekstri leikskólans.

Segja má að miklar breytingar hafi orðið frá fyrstu árum barnaheimilis hvað varðar hugmyndafræði. Það virðist sem systurnar hafi verið í kennarahlutverkinu og að ströngum aga hafi verið haldið í heiðri svo og kynjaskiptingu. Á myndum og frásögnum fólks frá þessum árum má glöggt greina áhrif menningarmiðlunarstefnunnar í starfi þeirra. Börnin voru í stórum hópum og sátu við sín borð, rétt eins og tíðkast hefur í eldri deildum til þessa. Mikið var lagt upp úr beinni kennslu og jafnvel reynt að kenna börnunum stærðfræði. Það var mikið föndrað, en flest af því ef ekki allt var eftir uppskriftum, minna lagt upp úr skapandi starfi barnanna og hugmyndaauðgi þeirra. Einnig virðist sem systurnar hafi notað refsingar sem í dag myndu ekki líðast. Hvort sem það var tíðarandanum þá um að kenna eða uppeldishugmyndum frá þeirra heimalandi skal ósagt látið. Þá sköpuðust oft heitar umræður í bænum um réttmæti þess að börnin væru í gæslu hjá systrunum, sem höfðu misgóð og jafnvel miður góð tök á íslenskunni. Þeir voru þó í meirihluta sem voru veru systranna hér og starfi þeirra hliðhollir.

Nafnið ,, Spító “ festist fljótlega við barnaheimilið og mun það vera stytting á Spítalaskóli. Eftirminnilegasta minning flestra þeirra barna sem voru á Spító á þessum árum er um Malú. Malú var teiknimyndahetja sem var í miklu uppáhaldi hjá heilli kynslóð. Þegar sýningum lauk, var alltaf hrópað ,, meira Malú, meira Malú………”, hvort sem látið var undan þeim kröfum eður ei.

Fram til 1997 voru starfsmenn leikskólans að mestu leiti ófaglærðir og því reynt að halda námskeið af ólíkum toga þeim til stuðnings. Starfsfólk var ötult við að afla sér upplýsinga frá öðrum leikskólum um til dæmis hópastarf, val og þema og kynnti sér vel Uppeldisáætlun fyrir leikskóla: Markmið og leiðir, þ.e. undanfara þeirrar Aðalnámskrár sem við nú styðjumst við.

Á 40 ára afmæli leikskólans, í október 1997, höfðu aðeins þrír lærðir leikskólakennarar unnið við Leikskólann í Stykkishólmi fyrir utan Systur Lovísu og þá ekki nema einn í einu og í mjög mislangan tíma. Þannig var Agnes Agnarsdóttir hér árin 1983-1986, Kristín Vilhelmsdóttir 1993-1995 og loks leikskólastjórinn okkar, Sigrún Þórsteinsdóttir, sem tók til starfa 1. ágúst 1997, þegar Stykkishólmsbær tók alfarið yfir rekstur leikskólans. Við það varð einnig til ný staða í skólanum þ.e. aðstoðarleikskólastjóri, og var Gunnsteinn Sigurðsson þroskaþjálfi fyrstur til að gegna þeirri stöðu. Í kjölfar þess að hér kom lærð fóstra 1993, kom fyrsti neminn hingað að vori 1994 í verknám og var í tvo mánuði öllum til ánægju og fróðleiksauka. Síðan þá hafa allmargir nemar sótt í að koma í vettvangsnám til okkar og vonum við að áframhald verði á því í framtíðinni.

Fyrsti sérstuðningur við börn hófst haustið 1993 og var honum sinnt af ófaglærðum starfsmönnum í leikskólanum en í nánu samstarfi við þroskaþjálfa sem starfaði á svæðisskrifstofu fatlaðra. Þeim börnum sem þurfa á stuðningi að halda fjölgar ört, svolítið misjafnt eftir árum þó, og var gott samstarf við svæðisskrifstofuna á meðan hún starfaði. Eftir að sveitarfélögin tóku yfir málefni fatlaðra sér Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga um þau mál, en sérfræðingar hennar koma reglulega í leikskólann.

Við leikskólann er starfandi foreldrafélag og hefur það starfað frá árinu 1989. Fulltrúar í það eru valdir af öllum deildunum 3 og eru þeir ca. 5 talsins þar af 1 formaður. Félagið er mjög virkt og heldur fundi sína mánaðarlega. Það hefur einnig haft áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum leikskólans (nú Skólanefnd Stykkishólmsbæjar) síðan í mars 1993 og þá um leið fengu starfsmenn leikskólans sinn fulltrúa. Af föstum uppákomum félagsins má nefna, vorferð út úr bænum, sundferð, jólaföndur með foreldrum og yfirleitt 1 fyrirlestur á ári ætlaðan foreldrum. Í dag eru þessir fyrirlestrar oft í tengslum við aðalfund félagsins sem er jafnan í september eða október ár hvert.

Foreldrafélagið stóð fyrir almennum borgarafundi haustið 1996 og boðaði á hann bæjarstjórn og stjórn leikskólans. Ástæða fundarboðsins var óánægja bæjarbúa með m.a. örar starfsmannabreytingar, vöntun á uppeldismenntuðu fólki á leikskólann og vistunartímann, sem var aðeins 4 stundir. Þetta varð mikill hitafundur og mikil pressa lögð á stjórnirnar að finna leiðir til úrbóta. Á fundinum var reifuð sú hugmynd hvort ekki væri hægt að styðja við starfsfólk í menntunarmálum. Var þeirri hugmynd vel tekið. Þessi fundur hefur líklega verið kveikjan að þeim breytingum sem urðu í kjölfarið.

Strax næsta haust (1997) voru tveir starfsmenn leikskólans skráðir til náms í fjarnámi í leikskólafræðum og útskrifuðust vorið 2001. Eftir það fjölgaði þeim starfsmönnum sem fóru fjarnámsleiðina til að verða leikskólakennarar og hefur starf leikskólans notið góðs af því. Síðustu árin hefur hlutfall fagmenntaðs starfsfólks aukist til muna og hafa að jafnaði 4-5 leikskólakennarar starfað við skólann í einu. Auk þess hefur hlutfall annarra háskólamenntaðra starfsmanna aukist jafnt og þétt og góður fastur kjarni reynslumikilla ófaglærða starfsmanna ávalt verið til staðar. Starfsmannahald hefur því verið nokkuð stöðugt í gegnum árin.

Með breyttum aðstæðum svo sem lengdum vistunartíma, mat í hádeginu og fjölgun deilda var ljóst að gamla húsnæðið á Austurgötunni uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem gera þarf til starfsins, enda ekki byggt með slíkt í huga. Ákveðið var því að ráðast í byggingu nýs leikskóla og var staðsetning hans ákveðin í Tjarnarmýrinni, við Búðanesveg 2. Skólabyggingin var í hönnun og byggingu á árunum 2005-2006 og var starfsemin flutt um áramótin 2006-7. Fyrsti skóladagur á nýjum stað var 8. janúar 2007 og var þá lóð fullfrágengin og húsið sjálft að mestu leyti, fyrir utan örlítinn lokafrágang. Það eru Arkís ehf., Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. og Landhönnun slf. sem eru hönnuðir byggingarinnar og lóðarinnar, og byggingaraðili Skipavík hf. Leikskólinn er þriggja deilda, með tveimur inngöngum fyrir börn og einum fyrir starfsfólk. Möguleiki er á stækkun til vesturs um 60 m2, þannig að við bætist fjórða deildin. Gert er ráð fyrir að í leikskólanum geti verið 74 börn samtímis, en 100 ef til stækkunar kæmi, miðað var þá við að 18 mánaða börn fengju leikskólavist. Haustið 2008 var í fyrsta sinn boðið upp á leikskólavist fyrir 12 mánaða börn í leikskólanum. Hafði þá börnum fækkað í árgöngum og miðað við að tekið væri við 12 mánaða börnum ef pláss væri. Eldri börn hafa forgang. Við þessa breytingu fækkaði börnum örlítið á yngstu deildinni og leikskólinn taldist þá fullnýttur með 70 börnum.

Haustið 2017 var um 60 m2 húsi komið fyrir við lóð leikskólans og þar varð til fjórða deildin Bakki en þar voru allra yngstu nemendur okkar. Nemendum hafði fjölgað það mikið að þessi lausn var nauðsynleg til að áfram væri hægt að bjóða börnum nám í leikskólanum frá 12 mánaða aldri. Við þessar breytingar gat leikskólinn tekið við 83-84 börnum í leikskólann á fjórum deildum. Þessi lausn var ekki varanleg og áfram er stefnt að því að byggja fjórðu deildina til vesturs við Vík.

Sumarið 2021 var hafist handa við að fullklára leikskólabygginguna og flutti Bakkinn inn í hús í mars 2022. Varð þá til Bakkasel, miðstöð skapandi vinnu í leikskólanum, með ýmsan efnivið sem mest gagnast eldri deildum leikskólans. Síðustu árin hefur einnig verið í þróun skógarskóli/útikennsla með tveimur elstu árgöngunum í Nýræktinni. Ekki hefur verið vanþörf á fleiri kennslurýmum í leikskólanum þar sem þegar líða hefur á vor hefur jafnan verið orðið vel fullt, allt að 93 nemendur í smá tíma.

Leikskólahúsið er um 600 m2 að brúttó flatarmáli og Bakkasel um 60 m2. Lóðin er 6419 m2.

Hér má finna afmælisrit sem gefið var út á barnamenningarhátíð í tengslum við afmæli Leikskólans í Stykkishólmi