Mánudaginn 19. janúar fengum við til okkar Kristjönu Skúladóttur leikkonu frá Sögustund.is með sýningu. Sýningin var í boði foreldrafélagsins og var afar skemmtileg og náði vel til barnanna sem hljógu mikið og vel af sögunum af þeim Rakel og Rúsínu og Jófríði nágranna þeirra og tröllastráknum Grjótfinni Drullmundarsyni og ævintýrum þeirra. Við þökkum foreldrafélaginu vel fyrir.
Í morgun fórum við í hina árlegu jólasamverustund skólanna í Stykkishólmi sem haldin var að venju í Stykkishólmskirkju. Löng hefð er orðin fyrir þessari samveru eldri deilda leikskólans, yngri bekkja grunnskólans og tónlistarskólans. Að venju fluttu leikskólabörnin nokkur lög og höfðu gaman af ferðinni, ekki síst þar sem við fórum í rútu með Gumma bílstjóra sem tók hefðbundinn jólaljósarúnt á leiðinni í leikskólann aftur. Þriðji bekkur flutti helgileik og nokkrir af nemendum tónlistarskólans fluttu tónlistaratriði ýmist með kennurum sínum eða einleik.
Gemlingasveit Tónlistarskólans kom í jólaheimsókn til okkar á dögunum. Þau tóku fyrir okkur nokkur lög og við fengum líka kynningu á þeim hljóðfærum sem þau spiluðu á. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.