Viðbragðsáætlun

Í skólum, sem öðrum stofnunum, verður vart hjá því komist að starfsfólk og nemendur verði fyrir erfiðri lífsreynslu eða þeir atburðir verði að einstaklingur eða hópur fái áfall. Slíkum atburðum þarf að bregðast við með markvissum hætti og koma, eftir því sem tök eru á, í veg fyrir varanleg eftirköst og skaða. Skólar þurfa að vera við því búnir að taka fyrirvaralaust á erfiðum málum og til þess að svo geti orðið þarf að liggja fyrir hverjir eiga að bregðast við óvæntum áföllum og hvernig að því er staðið. Þess vegna hefur Leikskólinn í Stykkishólmi sett fram eftirfarandi áfallaáætlun.

Með áföllum er átt við

  • Dauðsföll
  • Alvarleg veikindi
  • Slys og afleiðingar þess
  • Ýmsar félagslegar aðstæður sem leiða til aukins álags á heimili barns s.s. skilnaður, flutningar, vímuefni, atvinnuleysi og misnotkun.
  • Ofbeldi sem starfsfólk og nemendur geta orðið fyrir í starfi.

 

Þegar áfall verður í leikskólanum sem tengist starfsmanni eða leikskólabarni með beinum hætti er mikilvægt að öll skilaboð berist strax til leikskólastjóra eða staðgengils hans. Leikskólastjóri kallar út áfallateymi ef þurfa þykir sem skipuleggur með hvaða hætti skuli bregðast við, stjórnar aðgerðum.

Áfallateymi - Leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og deildarstjórar. Auk þess er kallaður til sá sem næstur stendur málinu hverju sinni. Hlutverk teymisins er að undirbúa viðbrögð við áföllum sem tengjast nemendum svo sem dauðsföllum í fjölskyldu, alvarlegum veikindum, slysum á skólatíma og afleiðingum náttúruhamfara. Áfallateymið sér einnig um:

  • upplýsingaflæði til allra innan skólans sem tengjast nemandanum.
  • stuðning við kennara.
  • að fylgjast með að nemandinn fái allan þann stuðning sem mögulegt er að veita innan skólans, eins lengi og hann þarfnast.
  • aðgengilegt fræðsluefni fyrir kennara og starfsmenn um viðbrögð við áföllum og alvarlegum veikindum.

Áfallateymi starfar í algjörum trúnaði við skjólstæðinga sína og lætur ekki neinar upplýsingar frá sér nema í fullu samráði við viðkomandi aðila.

 

Vinnuferill vegna áfalla eða slysa í leikskólanum

  1. Veita fyrstu hjálp á staðnum sem við á hvert sinn. Sá starfsmaður er kemur fyrst á vettvang sinnir fyrstu hjálp, kallar á aðstoð og sér um að hringt sé í 112 ef þurfa þykir. (hver hringir, hvar við erum, hvað kom fyrir og fyrir hvern)
  2. Láta leikskólastjóra vita, ef hann er ekki á staðnum þá aðstoðarleikskólastjóra og næst deildarstjóra.
  3. Í sameiningu sjá þeir um :
    1. Að þeim slasaða sé sinnt.
    2. Honum sé fylgt næstu skref.
    3. Aðrir starfsmenn sjá um að börn séu færð í annað rými og reynt að koma á ró.
    4. Kalla á viðeigandi hjálp, ef ekki hefur verið metið að það þyrfti í byrjun að hringja í 112
  4. Leikskólastjóri/deildarstjóri láta foreldra/forráðamenn viðkomandi nemanda vita.
  5. Ef ekki þarf að senda sjúkrabíl þá þarf að fara með barnið á næstu heilsugæslu. Neyðarlínan sér um að skrá viðkomandi inn í kerfið og sendir skilaboð á viðkomandi heilbrigðisstofnun áður en hinn slasaði kemur.
  6. Skólastjórnendur virkja áfallateymi ef með þarf.
  7. Starfsfólk, foreldrar og nemendur leikskólans, eru upplýst um málið og áfallaáætlun tekur gildi ef um frekari aðgerðir er að ræða. Auk þess er bæjarstjóra tilkynnt um alla alvarlegri atburði.
  8. Ef fjölmiðlar sækjast eftir upplýsingum skal benda á leikskólastjóra eða staðgengil hans.

Það sem þarf að fara reglulega yfir er :

  • Hvaða börn eru með sjúkdóma
  • Hvaða börn eru með ofnæmi
  • Hvaða börn hafa fengið hitakrampa
  • Hvaða börn eru með lyf við sínum veikindum og hvar eru þau geymd ?

 

Í flestum tilfellum eru lyf geymd í skáp fyrir ofan vask á deild viðkomandi barns. Mikilvægt að allir starfsmenn kynni sér þetta vel.

Farið skal yfir þetta á sameiginlegum fundum t.d. starfsmannafundum og fundum á starfsdögum leikskólans.

Börn fá sérfæði í leikskólanum í samstarfi við foreldra ef um óþol eða ofnæmi er að ræða. Óheimilt er að vera með hnetur í leikskólanum.

Annað hvert ár taka allir starfsmenn leikskólans þátt í skyndihjálparnámskeiði.