Börn eru miklir rannsakendur, þau vilja horfa og skoða og prófa.
Börnin í leikskólanum í Stykkishólmi, sérstaklega á Ási og Nesi eru sérlega áhugasöm um nýjan pappírstætara sem við keyptum síðast liðið haust. Þau byrjuðu á því að koma og sjá þegar ég var að tæta niður pappír, þau lágu á gólfinu og horfðu á hvernig pappírinn varð að strimlum í pappírshólfinu. Seinna fengu þau að prófa að setja pappírinn sjálf í tætarann, undir minni umsjón. Þá er gjarnan eitt barnið sem matar tætarann og önnur sem liggja á gólfinu og horfa á hann koma niður í pappírshólfið.
Nú er það orðið þannig að við söfnum pappír í kassa inn á skrifstofu, þau koma svo og spyrja hvort að pappírstætarinn, hugsið ykkur hvað þetta er flókið orð, er svangur og ef að hann er svangur og ég ekki upptekin, gefa þau honum að borða. Svo finnum við saman út hvenær hann er orðinn saddur. Svo hjálpa þau okkur að setja pappírinn í poka og að sópa upp og ganga frá.
Í tilefni af degi leikskólans set ég þessa stuttu frásögn og myndir hér inn. Ég er mjög spennt að vita hvert þessi rannsókn og uppgötvunarnám barnanna leiðir okkur. Því allt sem börnin gera getur verið og á að vera nám, hér læra þau að vinna saman, þora að prófa eitthvað nýtt, læra ný orð, skilja orsök og afleiðingu, þolinmæði og skilning á tækni.
Ekkert af þessu var stýrt af kennara, þau koma og spyrja og spjalla við okkur Ellý í leiðinni, við fáum nokkur faðmlög frá þeim sem það vilja, þau spyrja út í myndir á veggjum og myndir á tölvum, við ræðum um veður og hvað eina sem okkur dettur í hug. Nú eru þau mjög spennt og upptekin af öskudeginum sem er aðal hátíðisdagur okkar.
Börn eru dásamlegir snillingar og börnin okkar í leikskólanum í Stykkishólmi eru það svo sannarlega!
Til hamingju með dag leikskólans!