04.12.2017
Í þessari fyrstu viku í aðventu verður nóg um að vera í leikskólanum. Eins og áður hefur verið auglýst er jólaföndur foreldrafélagsins þessa vikuna, auk kirkjuferðarinnar, jólaskólastundar og tónleika Litlu lúðró í leikskólanum, svo eitthvað sé nefnt. Athugið að jólaföndur á Nesi er miðvikudaginn 6. desember en ekki fimmtudaginn 7. desember eins og ranglega birtist í atburðadagatali Stykkishólms. Í dag mánudag er jólaföndur á Vík kl. 15, Ásinn föndrar svo á þriðjudag, Nes á miðvikudag og Bakki á fimmtudaginn, allir byrja kl. 15.
Á morgun, þriðjudaginn 5. desember, fara þrír elstu árgangarnir í kirkjuferðina en hún er árviss viðburður leikskólans, tónlistarskólans og yngri bekkja grunnskólans á aðventunni. Að venju er það þriðji bekkur sem sér um helgileikinn en einnig verða atriði frá leikskólanum og tónlistarskólanum. Farið verður frá leikskólanum í rútu um kl. 10:15.
Jólaskólastundin er á miðvikudaginn kl. 10:15. Þar verður föndrað og líka dregið í hlutverk fyrir helgileikinn sem æfður verður í næstu viku. Á föstudaginn eigum við von á Litlu lúðrasveitinni með tónleika í salnum okkar kl. 10.