Heimurinn er hér! Fyrirlestur í tengslum við afmæli Leikskólans í Stykkishólmi.

Á liðnum árum og áratugum hafa fólksflutningar á milli landa og heimsálfa aukist hratt og sjaldan eða aldrei hafa eins margir í heiminum verið á faraldsfæti. Fyrir því eru fjölmargar ástæður, sumir velja að flytja sig um set til að fara í nám, gifta sig, sækja vinnu eða láta sig dreyma um betra líf fyrir börnin sín í nýju landi. Til Íslands hafa flutt einstaklingar og fjölskyldur víðsvegar að og flest þekkjum við sjálf einhverja sem hafa flutt erlendis eða höfum reynslu af því sjálf að setjast að á nýjum stað. Í Stykkishólmi hafa aðfluttir Hólmarar um áratugaskeið haft mikil og jákvæð áhrif á mótun bæjarbragsins, skólastarf, vinnustaði og samfélagið í heild. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fólksflutninga fyrr og nú, velt upp spurningum um áhrif þess á þróun samfélagsins og skoðað hvað hver og einn getur lagt af mörkum til að bjóða alla nýja íbúa í Stykkishólmi velkomna.

Fríða Bjarney Jónsdóttir er verkefnastjóri fjölmenningar í leikskólum Reykjavíkur. Hún hefur unnið að málefnum barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd frá árinu 2001.

Allir er u velkomnir, fyrirlesturinn hefst kl. 17 og enginn aðgangseyrir. Fyrirlesturinn verður haldinn í Tónlistarskóla Stykkishólms.