Starfsemi leikskólans í Stykkishólmi hófst á ný eftir sumarfrí mánudaginn 10. ágúst. Ekki var annað að sjá en börnin væru ánægð með að mæta aftur í leikskólann eftir mánaðarfjarveru.
Eins og eflaust einhverjir hafa tekið eftir voru aðstæður við útisvæði leikskólans bættar nú í sumar. Búið er að fjarlægja grófa möl sem var umhverfis leiktækin og leggja þess í stað gervigras sem uppfyllir nýjustu kröfur um fallvarnir leiksvæða. Þar að auki hefur bílastæðum verið fjölgað við leikskólann eins og sjá má á myndunum hér að neðan.