Leikskólinn lokaður í dymbilviku

Stykkishólmsbær hefur ákveðið að leikskólinn verði lokaður í dymbilviku 6., 7. og 8. apríl. Álagið hefur verið mikið síðustu þrjár vikur og þykir skynsamlegt að lengja þann tíma sem páskafríið varir með það í huga að draga úr smitleiðum í samfélaginu.
Samkvæmt neyðarstigi Almannavarna eru í gangi forgangslistar fyrir fólk í framvarðarsveitum. Þeir foreldrar sem telja sig eiga rétt og þurfa að nýta forgangslistana þessa daga hafa verið beðnir um að láta vita.

Á fundi Almannavarna í gær, 1. apríl, kom í ljós að samkomubann verður framlengt út apríl, líklega með sömu takmörkunum á skólahaldi og verið hefur. Meðan á því stendur, geta foreldrar áfram tekið börnin sín úr leikskólanum og fengið gjöldin niðurfelld á móti. Foreldrar eru því beðnir um að láta vita sem fyrst, ef þeir ætla að nota þennan möguleika.
Við þökkum fyrir ákaflega gott samstarf á þessum vikum, óskum öllum gleðilegra páska og hvetjum alla til að fara varlega og halda sig heima við.