Mikið líf og fjör hefur verið í leikskólanum í dag og mikil spenna fyrir öskudeginum. Börnin hafa undanfarnar vikur unnið að því að búa sér til búninga og voru búningarnir hver öðrum fallegri allt frá ostasalati og mysingi til ninja, dreka og prinsessa af ýmsu tagi. Þeir sem vildu fengu andlitsmálningu og þegar allir voru orðnir klárir var haldið í salinn þar sem deildirnar hittust og slógu ,,köttinn" úr tunninni, sem reyndist svo vera full af poppkorni. Eins og venja er á svona dögum voru mikil ærsl, læti og kæti og allir virtust skemmta sér vel. Eftir hádegi var svo farið út að leika í þessu dýrindis veðri sem hefur verið í dag og undir lok dagsins virtust margir vera að stefna á íþróttahúsið þar sem foreldrafélag GSS stóð fyrir öskudagsballi.