Síðast liðinn föstudag héldum við upp á þjóðhátíðardag Póllands með hátíð í leikskólanum. Í hádeginu var gúllas með pólsku ívafi og með því voru pólskar kartöflubollur (kluski slaskie). Klukkan tvö hófst hátíðin formlega með söngstund þar sem sungin voru lög bæði á pólsku og íslensku. Rauðir og hvítir litir voru áberandi og börn í pólskum búningum settu skemmtilegan svip á hátíðina.
Agnieszka Imgront sem kennir pólskum börnum móðurmál sitt í grunnskólum á Snæfellsnesi og fjölskylda hennar færðu bæði leikskólanum og gunnskólanum bókagjafir í tilefni dagsins. Þau hafa ásamt öðrum komið á fót pólsku bókasafni í kassa í Ólafsvík til að auðvelda aðgengi pólskra barna að lesefni á móðurmálinu og nú er kominn vísir af því hér í Stykkishólmi líka. Bókagjöfin var frá ,,Bókasafni í kassa" og Bókasafni Pólska skólans í Reykjavík. Einnig hefur Agnieszka látið útbúa bókamerki og fengið alls kyns pólskt kynningarefni sem til sýnis var í leikskólanum, frá Pólska sendiráðinu á Íslandi, háskóla í Póllandi, pólskum bæjarfélögum og öðrum aðilum í Póllandi.
Pólskir foreldrar í Stykkishólmi buðu svo upp á dýrindis hlaðborð í síðdegiskaffinu. Leikskólinn þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi dagsins kærlega fyrir samstarfið. Það var ánægjulegt hversu góð þátttaka var. Myndir frá deginum eru inni á myndasíðunni okkar.