Svipmyndir úr útikennslu

Í morgunhúmi í janúar staulast röð af börnum í gulum vestum með kennurunum sínum í gegnum skaflanna á leið frá leikskólanum og upp í Nýrækt, eða í skóginn eins og þau orða það. Sum ganga á hlið eða afturábak, ? með rassinn út í vindinn?, til að skýla andlitinu fyrir skafrenningnum, en þó eru öll glöð og brosandi. Maður lætur ekki veðrið á sig fá þegar maður er á leiðinni í ævintýri.

Það er sama hvað maður kemur oft í þennan skóg, hann er aldrei eins. Stundum er svo dimmt undir trjánum að ómögulegt er að ímynda sér hvaða rökkurvættir leynist á milli þúfna, róta og mosavaxinna steina. Stundum hvíslar vindurinn að trjánum, en stundum orgar hann og allur skógurinn virðist vera á iði, þó það sé alltaf skjól niðri á skógarbotninum. Í leysingunum myndast heilt kerfi af stöðuvötnum á skógarbotninum. Stundum er skógurinn hvítur, stundum grár, og stundum er hann fullur af græn-gylltu ljósi.

Allur matur bragðast betur ef maður borðar hann úti. Heitur matur bragðast sérstaklega mikið betur og þeim mun meira eftir því sem kaldara er. Í skóginum fáum við sendan mat beint úr eldhúsinu í stórum hitapotti og unum glöð við þá vissu að okkur bragðast hann betur en þeim sem inni eru. Eina vandamálið er að ákveða hvort maður vill reyna að borða í vettlingum, sem getur verið kúnst, eða láta sig hafa það að vera kalt á puttunum. 

Í skóginum eru börnin umkringd lífi. Því miður er skynveruleiki margra barna í dag í auknum mæli manngerður eða stafrænn. En í skóginum eru börnin umlukin lifandi veruleika sem hefur tilvist og líf óháð þeim sjálfum. Trén eru lifandi verur sem við lærum að bera virðingu fyrir og þekkja. Sum þeirra hafa jafnvel nöfn eins og Regnhlífartréð og Klifurtréð. Um vorið áður en nokkur blóm eru sprottin safnast svo margar býflugur í sama tréð að það virðist suða og maður heyrir í því löngu áður en maður sér það. Það er auðvitað kallað Suðtréð.

 

Inni í verkfæraskúr, á milli hjólbara, tækja og tóla, þar sem sagir hanga í loftinu, er lítið húsbílaklósett. Þar er líka kassi með klósettpappír, sjúkrakassa, og auka fötum, og málmdós með kakói í af því að músin nagaði plastdósina og kúkaði í kakóið (líklega kunni hún ekki á klósettið). Það er svolítið kalt að setjast á þetta klósett en það er svo margt spennandi að skoða inni í skúr að kuldinn gleymist yfirleitt. Einkum er það markmið barnanna að finna músaholuna.

Yfir veturinn halda til í skóginum nokkrar rjúpur og í hvert skipti sem við heyrum rop læðast börnin af stað til að njósna um þær. Stundum spígsporar stelkurinn á undan okkur í röðinni og sandlóan kemur alltaf á sama stað og reynir að lokka okkur í burt frá hreiðrinu sínu. Eftir matinn kemur oftar en ekki skógarþröstur eða maríuerla að leita sér að brauðmola sem fallið hefur á jörðina. En þar sem er líf er líka dauði. Það kemur fyrir að jarða þurfi látinn fugl eða mús en það er hluti af hringrás sem börnin læra að skilja og virða.

Þegar líður á vorið má í hverri viku sjá nýtt blóm eða einhverja jurt stingast upp úr holtinu, vegarkantinum, eða skógarbotninum. Jafnvel ofan í skurðunum eru skrúðgarðar þegar hófsóleyjarnar blómstra. Í hverri viku læra börnin nýtt orð, jurtanafn, dýranafn, örnefni eða veðurorð. Í hverri viku má líka sjá hvernig skynjaður veruleiki barnanna vex því börnin taka eftir því sem þau eiga orð til að lýsa og nefna.


Það eru glöð börn sem ganga aftur í leikskólann eftir rúmlega fjögra tíma dvöl í skóginum. Í frjálsum leik í krefjandi landslagi hafa börnin sett sér hvert ögrandi verkefnið á fætur öðru. Þau hafa séð sig til neydd til að hjálpast að og standa saman og eru þéttari hópur fyrir vikið. Í skóginum hafa þau meira frelsi og bera meiri ábyrgð sem er grundvölluð í trausti milli barns og kennara. Slík gildi, samstaða og traust, eru fræ að betra samfélagi sem eru byrjuð að festa rætur hjá þessum börnum sem klæða sig úr gulu vestunum á leikskólalóðinni og fara inn að fá sér kaffitíma.

Höf. Hjalti Hrafn Hafþórsson, leikskólakennari í Leikskólanum í Stykkishólmi.