Í dag er bóndadagur og eins og löng hefð er fyrir í leikskólanum er haldið þorrablót þann dag. Eins og með allt annað þessa dagana þá varð að sníða blótið eftir aðstæðum og því engum utanaðkomandi boðið á blótið þetta árið.
Blótið var mjög vel heppnað en dagana á undan voru börnin búin að útbúa þorrahatta og eldri deildir búnar að æfa skemmtiatriði. Byrjað var á þorrasöngstund á Bakka kl. 9:30 og á Vík kl. 10:00 áður en nemendur þar fóru í sína leiki. Ás og Nes voru saman í salnum með sína dagskrá. Byrjað var á söngstund þar sem vísur og kvæði um þorrann og frostið voru mest áberandi.
Í leikskólanum aldrei þverr
ánægjunnar sjóður.
Þorramatur þykir mér
þjóðlegur og góður.
Síðan tóku við skemmtiatriði, hvert atriði öðru skemmtilegra. Eftir það var farið yfir í smá fróðleik um gamla tímann með glærusýningum. Þegar kom að hádegismat var búið að dekka upp langborð á deildunum og þorraveisla hófst. Þar var boðið upp á þjóðlegan mat eins og grjónagraut og slátur en líka hrútspunga, sviðasultu, svínasultu, hákarl og harðfisk.
Þegar allir voru orðnir mettir var komið að rólegheitum í salnum en boðið var upp á sögubíó þar sem sagan af Gilitrutt með myndum Brians Pilkington var sögð og sýnd uppi á vegg áður en haldið var út í frostið. Myndir frá deginum eru komnar inn á myndsíðu leikskólans og eiga fleiri eftir að bætast við á næstu dögum. Á myndunum má sjá hvað stemningin var góð.