Útskrift í leikskólanum

Fallegur útskriftarhópur, en í ár útskrifast 19 nemendur úr leikskólanum.
Fallegur útskriftarhópur, en í ár útskrifast 19 nemendur úr leikskólanum.

Í gær fór fram formleg útskrift í leikskólanum. Börnin undirbjuggu dagskrá til að sýna fjölskyldum sínum og hinum árgöngum leikskólans. Við völdum fjögur sönglög af þeim lögum sem sungin hafa verið í vetur og bjuggum til skuggaleikhús í kringum þau. Skipt var í fjóra hópa og allir gerðu sér sínar skuggabrúður í samræmi við texta laganna. Hóparnir höfðu því það hlutverk í sýningunni að vera annaðhvort að stjórna brúðum á bak við tjald, spila á hljóðfæri eða vera í kórnum sem stýrði söngnum, þó allir ættu að syngja með. Krökkunum fannst sérstaklega gaman að vinna með myndvarpann, ljós og skugga. 

Afhent voru útskriftarskjöl og fallegar birkiplöntur í tilefni þessara tímamóta. Grunnskólinn færði börnunum viðurkenningu fyrir þátttöku í vorskólanum og glaðning frá versluninni Kram. Börnin færðu leikskólanum góðar kveðjugjafir og voru mjög spennt fyrir því.

Í útskriftinni tóku væntanlegir kennarar þeirra í 1. bekk Mæja og Anna Margrét á móti málverki sem krakkarnir höfðu málað af sér. Málverkið mun taka á móti þeim í stofunni þeirra í grunnskólanum þegar þau mæta í haust og tengja þannig táknrænt skólana saman. Við þökkum foreldrahópnum og nemendum kærlega fyrir okkur, þökkum samveru og samstarf liðinna ára og óskum öllum góðs gengis í grunnskólanum.