Í morgun fórum við í hina árlegu jólasamverustund skólanna í Stykkishólmi sem haldin var að venju í Stykkishólmskirkju. Löng hefð er orðin fyrir þessari samveru eldri deilda leikskólans, yngri bekkja grunnskólans og tónlistarskólans. Að venju fluttu leikskólabörnin nokkur lög og höfðu gaman af ferðinni, ekki síst þar sem við fórum í rútu með Gumma bílstjóra sem tók hefðbundinn jólaljósarúnt á leiðinni í leikskólann aftur. Þriðji bekkur flutti helgileik og nokkrir af nemendum tónlistarskólans fluttu tónlistaratriði ýmist með kennurum sínum eða einleik.
Gemlingasveit Tónlistarskólans kom í jólaheimsókn til okkar á dögunum. Þau tóku fyrir okkur nokkur lög og við fengum líka kynningu á þeim hljóðfærum sem þau spiluðu á. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.
Elstu nemendur leikskólans lögðu land undir fót og heimsóttu Systraskjól miðvikudaginn 19. nóvember. Þar var mikið sungið og trallað og gleði skein úr hverju andliti, bæði ungra og aldinna. Við létum ekki bleytu og slabb á okkur fá en þetta er töluverður göngutúr fyrir stuttar fætur.
Á dögunum færði foreldrafélagið okkur að gjöf 12 endurskinsvesti með ljósum til að nota í útikennslunni. það var Sara Rún gjaldkeri félagsins sem kom og afhenti Hjalta Hrafni sem umsjón hefur með útikennslunni vestin. Skrímslahópurinn á Ási fór í fyrstu ferð í vestunum á mánudaginn og Draugahópurinn fylgdi svo í kjölfarið morguninn eftir. Vestin nýtast aldeilis vel ekki síst núna í skammdeginu og þökkum við foreldrafélaginu innilega fyrir gjöfina og góðvild þeirra í okkar garð.