Fréttir

Vinnudagur á leikskólalóðinni

Fimmtudaginn 5. júlí um leið og leikskóladegi lauk þann daginn mætti vaskur hópur foreldra, kennara og annarra bæjarstarfsmanna tilbúinn í fjölbreytta garðvinnu. Sigga Lóa garðyrkjufræðingur með meiru og foreldri tók að sér skipulagningu og verkstjórn og Jón Beck bæjarstarfsmaður og foreldri mætti með vinnuvélar og áhöld. Þau tvö leiddu svo hópinn næstu þrjá tímana og mátti sjá fólk að verki í öllum hornum lóðarinnar. Þar mátti t.a.m. sjá forseta bæjarstjórnar, formann bæjarráðs, formann skólanefndar og bæjarstjórann sem endaði daginn með því að grilla pylsur ofan í vinnumenn og fjölskyldur þeirra. Smiðirnir í hópnum skelltu upp útieldhúsi og tannlæknirinn holufyllti eftir gróðursetningu svo eitthvað sé nefnt. Bar öllum saman um það að þetta hafi verið mjög gefandi og skemmtileg stund sem ætti að vera árviss viðburður. Kennarar og stjórnendur leikskólans eru himinlifandi og þakklát fyrir framtakið og góða þátttöku. Myndir frá deginum eru komnar inn á myndasíðuna.