Fréttir

Námskeið á skipulagsdegi.

Starfsmenn leikskólans sátu námskeið á skipulagsdegi 19. ágúst s.l. þar sem viðfangsefnið var ,,Vinátta - eineltisverkefni Barnaheilla" og bangsinn Blær. Eins og áður hefur komið fram í leikskólafréttum þá gaf Kvenfélagið Hringurinn hér í Stykkishólmi okkur námsefnið fyrir eldri börnin s.l. haust og á vormánuðum var gjafafé frá Lionsklúbbi Stykkishólms m.a. notað til að kaupa námsefnið fyrir yngri börnin. Alla tónlistina í verkefninu má finna á Spotify ef leitað er eftir ,,Vinátta". Það voru þær Linda Hrönn Þórisdóttir verkefnastjóri hjá Barnaheill og Kristín Gísladóttir leikskólastjóri Uglukletts í Borgarnesi sem leiðbeindu starfsmönnum leikskólans þennan dag, en Ugluklettur var einn af þeim leikskólum sem prufukenndu námsefnið í upphafi og hefur náð góðum árangri með það.

Samstarfsverkefni leik- grunn- og tónlistarskóla

Á síðasta skólaári sótti Grunnskólinn í Stykkishólmi í samvinnu við leikskólann og tónlistarskólann um styrki til Sprotasjóðs varðandi verkefni á skólaárinu 2019-2020. Sótt var um styrki vegna fjögurra verkefna og fengust styrkir í þrjú þeirra. Leikskólinn er samstarfsaðili í tveimur verkefnanna og nú fer sú vinna að hefjast. Það eru árgangar 2014 og 2015 sem taka þátt, í sitt hvoru verkefninu.

Nýir starfsmenn í leikskólanum

Nú í byrjun skólaársins hófu tveir nýir starfsmenn störf í leikskólanum, Monika Kiersznowska á Bakka og Snæbjört Sandra Gestsdóttir á Ási. Í byrjun september mun Petrea Mjöll Elfarsdóttir hefja störf á Nesi en fram að því mun Hjalti verða þar en hann er svo á leið í leyfi fram að áramótum. Sóley hefur flutt frá Bakka yfir á Nes. Sigrún tekur aftur við leikskólastjórastöðunni 1. september eftir árs námsleyfi. Berglind Ósk mun þá fara í stöðu sérkennslustjóra og Elísabet Lára aftur í stöðu aðstoðarleikskólastjóra með einhverja viðveru inni á deildum. Nanna og Hulda koma aftur inn 1. október eftir leyfi. Leikskólinn telst því fullmannaður fyrir veturinn og hafa fyrstu dagarnir í aðlögunum á milli deilda gengið ljómandi vel ? Aðlögun nýrra nemenda hefst svo þriðjudaginn 20. ágúst en lokað er vegna skipulagsdags mánudaginn 19. ágúst en þá verða starfsmenn m.a. á námskeiði.