Fréttir

Jólakveðja Leikskólans í Stykkishólmi

Jólakveðja Leikskólans í Stykkihólmi

Helgileikurinn og litlu jólin í leikskólanum

Litlu jólin voru haldin í leikskólanum miðvikudaginn 18. desember og hófust að venju með helgileik elstu nemendanna. Búningarnir sem notaðir eru í leiknum eru mjög gamlir og saumaðir af St. Fransiskussystrum. Vekja þeir alltaf mikla athygli auk þess að margir foreldrar rifja gjarnan upp við þetta tækifæri hvaða hlutverk þeir höfðu í leiknum á sínum tíma. Eftir leikinn tók við jólaball en þar spiluðu Villi og Matti fyrir okkur jólalögin og jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum gjafir. Við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur við að gera þetta að góðum degi.

Einar Áskell í leikskólanum

Í dag kom Bernd Ogrodnik brúðumeistari til okkar með brúðusýninguna um Einar Áskel. Það voru foreldrafélagið og leikskólinn sem buðu í sameiningu upp á þessa sýningu. Ekki var annað að sjá en að börnin skemmtu sér vel. Myndir eru komnar inn á heimasíðuna.

Ný stjórn foreldrafélags leikskólans

Aðalfundur Foreldrafélags Leikskólans í Stykkishólmi var haldinn í gærkvöldi í sal skólans, Mostraskeggi. Kosin var ný stjórn fyrir skólaárið 2019-2020 og í henni sitja: Klaudia Sylwia Gunnarsdóttir, formaður Ingunn Alexandersdóttir, gjaldkeri Anna Margrét Ólafsdóttir, ritari Elva Rún Óðinsdóttir, meðstjórnandi Ósk Hjartardóttir, meðstjórnandi Fundurinn samþykkti að félagsgjaldið yrði kr. 450,- fyrir hvert barn á mánuði frá 1. nóvember. Enn vantar tvo fulltrúa í foreldraráð leikskólans og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við leikskólastjóra.

Námskeið á skipulagsdegi.

Starfsmenn leikskólans sátu námskeið á skipulagsdegi 19. ágúst s.l. þar sem viðfangsefnið var ,,Vinátta - eineltisverkefni Barnaheilla" og bangsinn Blær. Eins og áður hefur komið fram í leikskólafréttum þá gaf Kvenfélagið Hringurinn hér í Stykkishólmi okkur námsefnið fyrir eldri börnin s.l. haust og á vormánuðum var gjafafé frá Lionsklúbbi Stykkishólms m.a. notað til að kaupa námsefnið fyrir yngri börnin. Alla tónlistina í verkefninu má finna á Spotify ef leitað er eftir ,,Vinátta". Það voru þær Linda Hrönn Þórisdóttir verkefnastjóri hjá Barnaheill og Kristín Gísladóttir leikskólastjóri Uglukletts í Borgarnesi sem leiðbeindu starfsmönnum leikskólans þennan dag, en Ugluklettur var einn af þeim leikskólum sem prufukenndu námsefnið í upphafi og hefur náð góðum árangri með það.

Samstarfsverkefni leik- grunn- og tónlistarskóla

Á síðasta skólaári sótti Grunnskólinn í Stykkishólmi í samvinnu við leikskólann og tónlistarskólann um styrki til Sprotasjóðs varðandi verkefni á skólaárinu 2019-2020. Sótt var um styrki vegna fjögurra verkefna og fengust styrkir í þrjú þeirra. Leikskólinn er samstarfsaðili í tveimur verkefnanna og nú fer sú vinna að hefjast. Það eru árgangar 2014 og 2015 sem taka þátt, í sitt hvoru verkefninu.

Nýir starfsmenn í leikskólanum

Nú í byrjun skólaársins hófu tveir nýir starfsmenn störf í leikskólanum, Monika Kiersznowska á Bakka og Snæbjört Sandra Gestsdóttir á Ási. Í byrjun september mun Petrea Mjöll Elfarsdóttir hefja störf á Nesi en fram að því mun Hjalti verða þar en hann er svo á leið í leyfi fram að áramótum. Sóley hefur flutt frá Bakka yfir á Nes. Sigrún tekur aftur við leikskólastjórastöðunni 1. september eftir árs námsleyfi. Berglind Ósk mun þá fara í stöðu sérkennslustjóra og Elísabet Lára aftur í stöðu aðstoðarleikskólastjóra með einhverja viðveru inni á deildum. Nanna og Hulda koma aftur inn 1. október eftir leyfi. Leikskólinn telst því fullmannaður fyrir veturinn og hafa fyrstu dagarnir í aðlögunum á milli deilda gengið ljómandi vel ? Aðlögun nýrra nemenda hefst svo þriðjudaginn 20. ágúst en lokað er vegna skipulagsdags mánudaginn 19. ágúst en þá verða starfsmenn m.a. á námskeiði.

Útskriftarnemendur með gjöf til leikskólans

Í morgun komu fulltrúar útskriftarnemenda leikskólans ásamt mæðrum sínum með gjafir til bæði starfsmanna og nemenda. Tilefnið var að þessa dagana eru þau að kveðja leikskólann sinn og færast yfir á næsta skólastig. Þau komu með dýrindis kökur á kaffistofuna og færðu starfsmönnunum nuddtæki sem strax var tekið í notkun og börnunum segulkubba. Starfsfólk leikskólans vill þakka foreldrum og forráðamönnum elstu nemenda okkar innilega fyrir þessa hugulsemi og góða hugsun í okkar garð og þökkum fyrir samstarfið og samveru síðustu árin.

Vinnudagur á leikskólalóðinni - myndir

Vaskur hópur foreldra og starfsmanna með Siggu Lóu í verkstjórn og Jón Beck aðalreddara réðst í ýmis verkefni á leikskólalóðinni síðdegis í gær, miðvikudaginn 19. júní. Hafist var handa kl. 17 og endað í grilli tveimur tímum síðar. Á meðal verkefna dagsins var þessi pallur við útieldhúsið okkar sem sést hér á meðfylgjandi mynd, en strax í morgun voru börnin komin þar í leik. Þetta var reglulega skemmtilegt og gaman að sjá hvað allir demdu sér í verkin af miklu frumkvæði og fundu góðar lausnir. Myndir eru komnar inn á heimasíðuna.

Sumarhátíð og hjóladagur

Blíðskaparveður var þegar nemendur og starfsmenn leikskólans gerðu sér glaðan dag og héldu sumarhátíð og hjóladag. Lóðin var skreytt og ýmiskonar verkefni í boði út um alla lóð, sápukúlur, fótbolti, boltakast, krítar, andlitsmálning og flaggað var í tilefni dagsins.