Fréttir

Útskrift í leikskólanum

Í gær fór fram formleg útskrift í leikskólanum. Börnin undirbjuggu dagskrá til að sýna fjölskyldum sínum og hinum árgöngum leikskólans. Við völdum fjögur sönglög af þeim lögum sem sungin hafa verið í vetur og bjuggum til skuggaleikhús í kringum þau. Skipt var í fjóra hópa og allir gerðu sér sínar skuggabrúður í samræmi við texta laganna. Hóparnir höfðu því það hlutverk í sýningunni að vera annaðhvort að stjórna brúðum á bak við tjald, spila á hljóðfæri eða vera í kórnum sem stýrði söngnum, þó allir ættu að syngja með. Krökkunum fannst sérstaklega gaman að vinna með myndvarpann.

Útskriftarferð á Gráukúlu

Árgangur 2018 fór í útskriftarferð á Gráukúlu s.l. fimmtudag ásamt fjölda aðstandenda en fleiri fullorðnir en börn gengu á fjallið. Vel viðraði og fóru allir upp á eldfjallið og kíktu ofan í gíginn, sumum fannst nóg um. Við enduðum svo niðri á Hraunflöt þar sem var grillað og farið í leiki. Foreldrum og öðrum aðstandendum sem tóku þátt í ferðinni er þakkað kærlega fyrir aðstoðina. Þetta væri ekki hægt nema með þeirra aðstoð.