Fréttir

Útskrift í leikskólanum

Í dag, miðvikudaginn 29. maí útskrifuðum við elstu nemendur okkar. Börnin voru búin að undirbúa dagskrá fyrir þetta tilefni sem þau sýndu fjölskyldum sínum. Þau fóru með þulu og sýndu skuggaleikhús þar sem þau ýmist stjórnuðu skuggabrúðum á bak við tjald, spiluðu á hljóðfæri eða sungu í kórnum. Allir stóðu sig með mikilli prýði. Eftir dagskrána var Önnu Margréti grunnskólakennara sem tekur við hópnum í 1. bekk í haust afhent mynd sem börnin höfðu málað af sér sjálfum, en myndinni er ætlaður staður í stofunni þeirra í grunnskólanum. Börnin fengu síðan afhent útskriftarskjöl og birkiplöntu sem kveðjugjöf frá leikskólanum. Boðið var upp á léttar veitingar í lokin, m.a. rice krispies kökur sem börnin höfðu sjálf útbúið. Það eru 14 nemendur sem útskrifast frá leikskólanum þetta vorið en einn var fjarverandi í dag. Þó formlegri útskrift sé lokið þá taka nú við spennandi sumarverkefni en meirihluti barnanna verður áfram í leikskólanum alveg fram að sumarfríi.

Slökkviliðið sló í gegn

Slökkviliðsmenn komu í heimsókn í leikskólann í dag á slökkvibílnum og vöktu mikla lukku hjá krökkunum. Þakka nemendur og kennarar kærlega fyrir þessa vel heppnuðu heimsókn sem mjög vel var staðið að hjá þeim félögum.

Vorskólinn

Elstu nemendur leikskólans tóku þátt í vorskóla í grunnskólanum fyrstu þrjá daga vikunnar.

Blokkflaututónleikar og hljóðfærakynning

Blokkflautunemendur úr Tónlistarskólanum héldu tónleika í Mostraskeggi, sal leikskólans s.l. mánudag ásamt kennurum sínum. Þar var bæði leikið og sungið og þökkum við kærlega fyrir heimsóknina. Á miðvikudaginn fóru svo elstu nemendur leikskólans í hljóðfærakynningu í Tónó ásamt 1. og 2. bekk grunnskólans.

Viltu vinna í Leikskólanum í Stykkishólmi?

Lausar eru til umsóknar stöður leikskólakennara við Leikskólann í Stykkishólmi frá 12. ágúst 2019. Vakin er athygli á því að ef ekki fást leikskólakennarar til starfa, munu aðrar umsóknir koma til greina. Reynsla af uppeldis- og kennslustörfum með ungum börnum er æskileg.