26.10.2018
Opnuð hefur verið sýning á myndverkum nemenda í Leikskólanum í Stykkishólmi í tengslum við menningarhátíðina Norðurljósin 2018. Sýningin hefur hlotið nafnið ,,Myndverk í gluggum" og hefur verið komið fyrir í gluggum Skipavíkur verslunar.
24.10.2018
Miðvikudaginn 24. október er haldið upp á kvennafrídaginn og hvetja stéttarfélög konur til þess að leggja niður störf kl. 14:55.
Langar okkur konur í Leikskólanum í Stykkishólmi að sýna samstöðu og leggja niður störf kl. 14:55 þennan dag. Ef þið hefðuð tök á að sækja börnin ykkar fyrr, og þá helst feðurnir, yrðum við þakklátar. Að sjálfsögðu verður leikskólinn samt sem áður opinn fyrir þá sem ekki hafa tök á því að sækja börn sín.
Í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um launamun kynjanna kemur fram að meðalatvinnutekjur kvenna eru 74 prósent af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 26 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er skv. því lokið kl. 14:55 og því er miðað við þá tímasetningu.
12.10.2018
Mánudaginn 22. október lokum við hjá okkur kl. 12:00 vegna skipulagsdags. Enginn hádegismatur er í leikskólanum þann dag.
28.09.2018
Í dag er síðasti dagur Rósu Kristínar í leikskólanum en hún hefur unnið hjá okkur í nokkur ár. Við þökkum Rósu fyrir vel unnin störf og góðar samverustundir og óskum henni velfarnaðar í nýjum verkefnum. Á mánudaginn byrjar svo Hulda iðjuþjálfi aftur eftir 5 mánaða frí. Við bjóðum Huldu velkomna aftur.
28.09.2018
Aðalfundur foreldrafélagsins var haldinn síðastliðinn þriðjudag og urðu smá breytingar á stjórn félagsins. Jóna Gréta lét af störfum formanns og sagði Viktor sig einnig úr stjórn félagsins. Í stað þeirra buðu sig fram Kári Hilmarson og Ósk Hjartardóttir. Steinunn Alva, Rósa Kristín og Georg Pétur buðu sig áfram í stjórn félagsins. Stjórnin mun svo skipta með sér verkum á fyrsta fundi. Í foreldraráði lét Guðrún Harpa Gunnarsdóttir af störfum og bauð Martin Markvoll sig fram. Fyrir sitja Ingunn Sif sem er formaður og Sigrún Erla.
11.09.2018
Í síðustu viku hóf Guðbjörg Halldórsdóttir störf á Ási. Guðbjörg (Gugga) hefur reynslu af leikskólakennslu úr Leikskólanum Andabæ á Hvanneyri og hún hefur einnig starfað með unglingum í félagsmiðstöðvum. Við bjóðum hana velkomna til okkar.
Sigrún leikskólastjóri er farin í námsleyfi í eitt ár og tók Elísabet Lára (Ellý) við leikskólastjórn 1. september s.l. og þá um leið tók Berglind Ósk við stöðu aðstoðarleikskólastjóra og umsjón með sérkennslu.
11.09.2018
Á föstudaginn 14. september verður lokað hjá okkur kl. 12 vegna starfsdags. Enginn hádegismatur er í leikskólanum þann dag.
15.08.2018
Starfsdagur verður mánudaginn 20. ágúst en þá verða allir starfsmenn m.a. á skyndihjálparnámskeiði auk þess sem tími gefst til skipulagningar á skólastarfinu. Eftir það hefjast aðlaganir nýrra nemenda á yngri deildirnar Vík og Bakka. Fyrstu dagarnir eftir sumarlokun leikskólans hafa farið í aðlaganir og færslu nemenda á milli deilda og aðlaganir nýrra nemenda á eldri deildirnar Nes og Ás. Tölvupóstkerfið hefur verið í ólagi og því ekki sendur út tölvupóstur en hægt er að fylgjast með á skóladagatalinu og tilkynningum á Karellen og heimsíðunni. Nýr starfsmaður hefur hafið störf á Nesi, Særós Lilja Tordenskjöld Bergsveinsdóttir og í næstu viku byrjar Ísól Lilja Róbertsdóttir á Ási. Aðalheiður hefur nú tekið við sem deildarstjóri á Ási af Sigrúnu Önnu sem hefur hætt störfum. Við bjóðum nýja starfsmenn og nemendur velkomna.
09.07.2018
Fimmtudaginn 5. júlí um leið og leikskóladegi lauk þann daginn mætti vaskur hópur foreldra, kennara og annarra bæjarstarfsmanna tilbúinn í fjölbreytta garðvinnu. Sigga Lóa garðyrkjufræðingur með meiru og foreldri tók að sér skipulagningu og verkstjórn og Jón Beck bæjarstarfsmaður og foreldri mætti með vinnuvélar og áhöld. Þau tvö leiddu svo hópinn næstu þrjá tímana og mátti sjá fólk að verki í öllum hornum lóðarinnar. Þar mátti t.a.m. sjá forseta bæjarstjórnar, formann bæjarráðs, formann skólanefndar og bæjarstjórann sem endaði daginn með því að grilla pylsur ofan í vinnumenn og fjölskyldur þeirra. Smiðirnir í hópnum skelltu upp útieldhúsi og tannlæknirinn holufyllti eftir gróðursetningu svo eitthvað sé nefnt. Bar öllum saman um það að þetta hafi verið mjög gefandi og skemmtileg stund sem ætti að vera árviss viðburður. Kennarar og stjórnendur leikskólans eru himinlifandi og þakklát fyrir framtakið og góða þátttöku. Myndir frá deginum eru komnar inn á myndasíðuna.
22.06.2018
Til að taka þátt í stemningunni sem myndast hefur í landinu vegna þátttöku Íslands í HM í knattspyrnu var ákveðið að hafa ,,Áfram Ísland" dag í leikskólanum í dag. Mjög margir eru í íslensku fánalitunum í dag og í söngstund í morgun var víkingaklappið æft. Nokkrir fóru snemma heim en þegar þetta er skrifað eru fjöldi nemenda og starfsmanna saman komin í salnum okkar þar sem leiknum er varpað á einn vegginn. Víkingaklappið náðist á myndband í morgun.