03.06.2019
Lausar eru til umsóknar stöður leikskólakennara við Leikskólann í Stykkishólmi frá 12. ágúst 2019.
Gerð er krafa um:
Leikskólakennaramenntun
Góða tölvu- og íslensku kunnáttu
Færni í samskiptum
Metnað fyrir leikskólakennslu
29.05.2019
Í dag, miðvikudaginn 29. maí útskrifuðum við elstu nemendur okkar. Börnin voru búin að undirbúa dagskrá fyrir þetta tilefni sem þau sýndu fjölskyldum sínum. Þau fóru með þulu og sýndu skuggaleikhús þar sem þau ýmist stjórnuðu skuggabrúðum á bak við tjald, spiluðu á hljóðfæri eða sungu í kórnum. Allir stóðu sig með mikilli prýði. Eftir dagskrána var Önnu Margréti grunnskólakennara sem tekur við hópnum í 1. bekk í haust afhent mynd sem börnin höfðu málað af sér sjálfum, en myndinni er ætlaður staður í stofunni þeirra í grunnskólanum. Börnin fengu síðan afhent útskriftarskjöl og birkiplöntu sem kveðjugjöf frá leikskólanum. Boðið var upp á léttar veitingar í lokin, m.a. rice krispies kökur sem börnin höfðu sjálf útbúið. Það eru 14 nemendur sem útskrifast frá leikskólanum þetta vorið en einn var fjarverandi í dag. Þó formlegri útskrift sé lokið þá taka nú við spennandi sumarverkefni en meirihluti barnanna verður áfram í leikskólanum alveg fram að sumarfríi.
17.05.2019
Slökkviliðsmenn komu í heimsókn í leikskólann í dag á slökkvibílnum og vöktu mikla lukku hjá krökkunum. Þakka nemendur og kennarar kærlega fyrir þessa vel heppnuðu heimsókn sem mjög vel var staðið að hjá þeim félögum.
17.05.2019
Elstu nemendur leikskólans tóku þátt í vorskóla í grunnskólanum fyrstu þrjá daga vikunnar.
17.05.2019
Blokkflautunemendur úr Tónlistarskólanum héldu tónleika í Mostraskeggi, sal leikskólans s.l. mánudag ásamt kennurum sínum. Þar var bæði leikið og sungið og þökkum við kærlega fyrir heimsóknina. Á miðvikudaginn fóru svo elstu nemendur leikskólans í hljóðfærakynningu í Tónó ásamt 1. og 2. bekk grunnskólans.
03.05.2019
Lausar eru til umsóknar stöður leikskólakennara við Leikskólann í Stykkishólmi frá 12. ágúst 2019. Vakin er athygli á því að ef ekki fást leikskólakennarar til starfa, munu aðrar umsóknir koma til greina. Reynsla af uppeldis- og kennslustörfum með ungum börnum er æskileg.
24.04.2019
Opið hús verður í leikskólanum föstudaginn 3. maí frá kl. 14-16 (Bakki opnar kl. 15). Þar taka nemendur og kennarar leikskólans glaðir og kátir á móti gestum, sýna hluta af vinnu vetrarins ásamt því að bjóða upp á hollar og góðar veitingar. Allir eru hjartanlega velkomnir og við bjóðum væntanlega nemendur og aðstandendur þeirra sérstaklega velkomin.
Við hlökkum til að sjá sem flesta.
Nemendur og kennarar í Leikskólanum í Stykkishólmi
12.04.2019
Leikskólinn í Stykkishólmi auglýsir lausar stöður frá 12. ágúst n.k.
100% stöður deildarstjóra
100% staða sérkennslustjóra
100% stöður leikskólakennara
08.04.2019
Páskaeggjaleit foreldrafélagsins verður fimmtudaginn 11. apríl kl. 16:00 á leikskólalóðinni.
26.03.2019
Samkvæmt innritunarreglum Leikskólans í Stykkishólmi þarf umsókn um leikskólavist að liggja fyrir í síðasta lagi 1. maí ef óskað er eftir leikskóladvöl að hausti það sama ár. Sækja skal um á þar til gerðum eyðublöðum sem fást í leikskólanum og á íbúagátt á heimasíðu Stykkishólmsbæjar, stykkisholmur.is.
Öllum foreldrum/forráðamönnum er heimilt að sækja um leikskólavist óháð lögheimili en leikskólavist er ekki úthlutað nema staðfest sé að barnið eigi lögheimili í Stykkishólmi eða Helgafellssveit.
Ef biðlisti myndast er leikskólavist úthlutað eftir aldri barns og eldri börn fá vistun á undan sér yngri. Þegar kemur að vali milli barna sem fædd eru á sama ári og hafa náð tilskyldum aldri, gildir aldur umsókna. Aðlögun fer að mesta leyti fram í júní, ágúst og september. Eftir að hefðbundnum aðlögunartíma lýkur eru aðrir aðlögunartímar skoðaðir sérstaklega ef og þegar það eru laus leikskólapláss.
Foreldrar eru hvattir til þess að sækja tímanlega um leikskólapláss og einnig ef þeir sjá fram á breytingar á þeim vistunartímum sem börn þeirra eru nú með.