Fréttir

Námskeið á skipulagsdegi.

Starfsmenn leikskólans sátu námskeið á skipulagsdegi 19. ágúst s.l. þar sem viðfangsefnið var ,,Vinátta - eineltisverkefni Barnaheilla" og bangsinn Blær. Eins og áður hefur komið fram í leikskólafréttum þá gaf Kvenfélagið Hringurinn hér í Stykkishólmi okkur námsefnið fyrir eldri börnin s.l. haust og á vormánuðum var gjafafé frá Lionsklúbbi Stykkishólms m.a. notað til að kaupa námsefnið fyrir yngri börnin. Alla tónlistina í verkefninu má finna á Spotify ef leitað er eftir ,,Vinátta". Það voru þær Linda Hrönn Þórisdóttir verkefnastjóri hjá Barnaheill og Kristín Gísladóttir leikskólastjóri Uglukletts í Borgarnesi sem leiðbeindu starfsmönnum leikskólans þennan dag, en Ugluklettur var einn af þeim leikskólum sem prufukenndu námsefnið í upphafi og hefur náð góðum árangri með það.

Samstarfsverkefni leik- grunn- og tónlistarskóla

Á síðasta skólaári sótti Grunnskólinn í Stykkishólmi í samvinnu við leikskólann og tónlistarskólann um styrki til Sprotasjóðs varðandi verkefni á skólaárinu 2019-2020. Sótt var um styrki vegna fjögurra verkefna og fengust styrkir í þrjú þeirra. Leikskólinn er samstarfsaðili í tveimur verkefnanna og nú fer sú vinna að hefjast. Það eru árgangar 2014 og 2015 sem taka þátt, í sitt hvoru verkefninu.

Nýir starfsmenn í leikskólanum

Nú í byrjun skólaársins hófu tveir nýir starfsmenn störf í leikskólanum, Monika Kiersznowska á Bakka og Snæbjört Sandra Gestsdóttir á Ási. Í byrjun september mun Petrea Mjöll Elfarsdóttir hefja störf á Nesi en fram að því mun Hjalti verða þar en hann er svo á leið í leyfi fram að áramótum. Sóley hefur flutt frá Bakka yfir á Nes. Sigrún tekur aftur við leikskólastjórastöðunni 1. september eftir árs námsleyfi. Berglind Ósk mun þá fara í stöðu sérkennslustjóra og Elísabet Lára aftur í stöðu aðstoðarleikskólastjóra með einhverja viðveru inni á deildum. Nanna og Hulda koma aftur inn 1. október eftir leyfi. Leikskólinn telst því fullmannaður fyrir veturinn og hafa fyrstu dagarnir í aðlögunum á milli deilda gengið ljómandi vel ? Aðlögun nýrra nemenda hefst svo þriðjudaginn 20. ágúst en lokað er vegna skipulagsdags mánudaginn 19. ágúst en þá verða starfsmenn m.a. á námskeiði.

Útskriftarnemendur með gjöf til leikskólans

Í morgun komu fulltrúar útskriftarnemenda leikskólans ásamt mæðrum sínum með gjafir til bæði starfsmanna og nemenda. Tilefnið var að þessa dagana eru þau að kveðja leikskólann sinn og færast yfir á næsta skólastig. Þau komu með dýrindis kökur á kaffistofuna og færðu starfsmönnunum nuddtæki sem strax var tekið í notkun og börnunum segulkubba. Starfsfólk leikskólans vill þakka foreldrum og forráðamönnum elstu nemenda okkar innilega fyrir þessa hugulsemi og góða hugsun í okkar garð og þökkum fyrir samstarfið og samveru síðustu árin.

Vinnudagur á leikskólalóðinni - myndir

Vaskur hópur foreldra og starfsmanna með Siggu Lóu í verkstjórn og Jón Beck aðalreddara réðst í ýmis verkefni á leikskólalóðinni síðdegis í gær, miðvikudaginn 19. júní. Hafist var handa kl. 17 og endað í grilli tveimur tímum síðar. Á meðal verkefna dagsins var þessi pallur við útieldhúsið okkar sem sést hér á meðfylgjandi mynd, en strax í morgun voru börnin komin þar í leik. Þetta var reglulega skemmtilegt og gaman að sjá hvað allir demdu sér í verkin af miklu frumkvæði og fundu góðar lausnir. Myndir eru komnar inn á heimasíðuna.

Sumarhátíð og hjóladagur

Blíðskaparveður var þegar nemendur og starfsmenn leikskólans gerðu sér glaðan dag og héldu sumarhátíð og hjóladag. Lóðin var skreytt og ýmiskonar verkefni í boði út um alla lóð, sápukúlur, fótbolti, boltakast, krítar, andlitsmálning og flaggað var í tilefni dagsins.

Viltu vinna í Leikskólanum í Stykkishólmi

Lausar eru til umsóknar stöður leikskólakennara við Leikskólann í Stykkishólmi frá 12. ágúst 2019. Gerð er krafa um: Leikskólakennaramenntun Góða tölvu- og íslensku kunnáttu Færni í samskiptum Metnað fyrir leikskólakennslu

Útskrift í leikskólanum

Í dag, miðvikudaginn 29. maí útskrifuðum við elstu nemendur okkar. Börnin voru búin að undirbúa dagskrá fyrir þetta tilefni sem þau sýndu fjölskyldum sínum. Þau fóru með þulu og sýndu skuggaleikhús þar sem þau ýmist stjórnuðu skuggabrúðum á bak við tjald, spiluðu á hljóðfæri eða sungu í kórnum. Allir stóðu sig með mikilli prýði. Eftir dagskrána var Önnu Margréti grunnskólakennara sem tekur við hópnum í 1. bekk í haust afhent mynd sem börnin höfðu málað af sér sjálfum, en myndinni er ætlaður staður í stofunni þeirra í grunnskólanum. Börnin fengu síðan afhent útskriftarskjöl og birkiplöntu sem kveðjugjöf frá leikskólanum. Boðið var upp á léttar veitingar í lokin, m.a. rice krispies kökur sem börnin höfðu sjálf útbúið. Það eru 14 nemendur sem útskrifast frá leikskólanum þetta vorið en einn var fjarverandi í dag. Þó formlegri útskrift sé lokið þá taka nú við spennandi sumarverkefni en meirihluti barnanna verður áfram í leikskólanum alveg fram að sumarfríi.

Slökkviliðið sló í gegn

Slökkviliðsmenn komu í heimsókn í leikskólann í dag á slökkvibílnum og vöktu mikla lukku hjá krökkunum. Þakka nemendur og kennarar kærlega fyrir þessa vel heppnuðu heimsókn sem mjög vel var staðið að hjá þeim félögum.

Vorskólinn

Elstu nemendur leikskólans tóku þátt í vorskóla í grunnskólanum fyrstu þrjá daga vikunnar.