Fréttir

Vinnudagur á leikskólalóðinni

Fimmtudaginn 5. júlí um leið og leikskóladegi lauk þann daginn mætti vaskur hópur foreldra, kennara og annarra bæjarstarfsmanna tilbúinn í fjölbreytta garðvinnu. Sigga Lóa garðyrkjufræðingur með meiru og foreldri tók að sér skipulagningu og verkstjórn og Jón Beck bæjarstarfsmaður og foreldri mætti með vinnuvélar og áhöld. Þau tvö leiddu svo hópinn næstu þrjá tímana og mátti sjá fólk að verki í öllum hornum lóðarinnar. Þar mátti t.a.m. sjá forseta bæjarstjórnar, formann bæjarráðs, formann skólanefndar og bæjarstjórann sem endaði daginn með því að grilla pylsur ofan í vinnumenn og fjölskyldur þeirra. Smiðirnir í hópnum skelltu upp útieldhúsi og tannlæknirinn holufyllti eftir gróðursetningu svo eitthvað sé nefnt. Bar öllum saman um það að þetta hafi verið mjög gefandi og skemmtileg stund sem ætti að vera árviss viðburður. Kennarar og stjórnendur leikskólans eru himinlifandi og þakklát fyrir framtakið og góða þátttöku. Myndir frá deginum eru komnar inn á myndasíðuna.

Áfram Ísland dagur í leikskólanum

Til að taka þátt í stemningunni sem myndast hefur í landinu vegna þátttöku Íslands í HM í knattspyrnu var ákveðið að hafa ,,Áfram Ísland" dag í leikskólanum í dag. Mjög margir eru í íslensku fánalitunum í dag og í söngstund í morgun var víkingaklappið æft. Nokkrir fóru snemma heim en þegar þetta er skrifað eru fjöldi nemenda og starfsmanna saman komin í salnum okkar þar sem leiknum er varpað á einn vegginn. Víkingaklappið náðist á myndband í morgun.

Hjóladagur á sumarhátíðinni

Sumarhátíðin tókst vel í morgun. Nú var bryddað upp á þeirri nýbreitni að hafa hjóladag samhliða sumarhátíðinni. Við fengum hjálp frá Royal Rangers skátum frá Bandaríkjunum við að aðstoða börnin með hjólin og einnig var hægt að mála úti við trönur, blása sápukúlur, kríta og fleira. Vð fengum svo fjóra lögreglumenn á tveimur lögreglubílum í heimsókn. Þau skoðuðu hjólin og hjálmana og gáfu öllum viðurkenningarlímmiða frá lögreglunni. Að sjálfsögðu vorum við svo kvödd með sírenum og bláum blikkandi ljósum. Í hádeginu voru grillaðar pylsur. Góður dagur þó vissulega hefði mátt vera aðeins sumarlegra. Myndir eru komnar inn á myndasíðuna og fleiri eiga eftir að bætast við.

Opið hús í leikskólanum

Í dag, föstudaginn 27. apríl er opið hús í leikskólanum frá kl. 14 til 16 en hjá yngstu börnunum á Bakka verður opið á milli kl. 15 og 16. Allir velkomnir.

Upplestur í leikskólanum

Í tengslum við Júlíönu hátíð sögu og bóka sem haldin var í Stykkishólmi um s.l. helgi kom Jóhanna Gunnþóra og las bók sína Lofthrædda fjallageitin fyrir tvo elstu árganga leikskólans. Þetta er fyrsta bók hennar og ekki var annað að sjá en hún félli börnunum vel í geð. Á myndinni má sjá Jóhönnu lesa fyrir nemendur úr árgangi 2013.

Dagur leikskólans - skólanámsskrá útgefin

Á degi leikskólans kemur á vefinn ný og endurbætt skólanámsskrá leikskólans í Stykkishólmi og afmælisrit í tilefni 60 ár afmæli leikskólans.

Jólakveðja frá Leikskólanum í Stykkishólmi

Jólakveðja frá Leikskólanum í Stykkishólmi. Myndin er tekin af börnunum í hinum árlega helgileik í leikskólanum sem löng hefð er fyrir.

Fyrsta vika aðventu í leikskólanum

Í þessari fyrstu viku í aðventu verður nóg um að vera í leikskólanum. Eins og áður hefur verið auglýst er jólaföndur foreldrafélagsins þessa vikuna, auk kirkjuferðarinnar, jólaskólastundar og tónleika Litlu lúðró í leikskólanum, svo eitthvað sé nefnt. Athugið að jólaföndur á Nesi er miðvikudaginn 6. desember en ekki fimmtudaginn 7. desember eins og ranglega birtist í atburðadagatali Stykkishólms

Dagur íslenskrar tungu

Í dag höldum við upp á Dag íslenskrar tungu. Í tilefni dagsins komu krakkarnir í 5. og 6. bekk í leikskólann ásamt kennurum sínum og lásu fyrir leikskólabörnin öllum til gagns og gamans.

Pólski þjóðhátíðardagurinn í leikskólanum

Síðast liðinn föstudag héldum við upp á þjóðhátíðardag Póllands með hátíð í leikskólanum. Í hádeginu var gúllas með pólsku ívafi og með því voru pólskar kartöflubollur (kluski slaskie). Klukkan tvö hófst hátíðin formlega með söngstund þar sem sungin voru lög bæði á pólsku og íslensku.