Fréttir

Lausar stöður í Leikskólanum í Stykkishólmi

Leikskólinn í Stykkishólmi auglýsir lausar stöður frá 12. ágúst n.k. 100% stöður deildarstjóra 100% staða sérkennslustjóra 100% stöður leikskólakennara

Páskaeggjaleit foreldrafélags leikskólans fimmtudaginn 11. apríl

Páskaeggjaleit foreldrafélagsins verður fimmtudaginn 11. apríl kl. 16:00 á leikskólalóðinni.

Umsóknir um leikskólavist og breytingar á vistunartíma.

Samkvæmt innritunarreglum Leikskólans í Stykkishólmi þarf umsókn um leikskólavist að liggja fyrir í síðasta lagi 1. maí ef óskað er eftir leikskóladvöl að hausti það sama ár. Sækja skal um á þar til gerðum eyðublöðum sem fást í leikskólanum og á íbúagátt á heimasíðu Stykkishólmsbæjar, stykkisholmur.is. Öllum foreldrum/forráðamönnum er heimilt að sækja um leikskólavist óháð lögheimili en leikskólavist er ekki úthlutað nema staðfest sé að barnið eigi lögheimili í Stykkishólmi eða Helgafellssveit. Ef biðlisti myndast er leikskólavist úthlutað eftir aldri barns og eldri börn fá vistun á undan sér yngri. Þegar kemur að vali milli barna sem fædd eru á sama ári og hafa náð tilskyldum aldri, gildir aldur umsókna. Aðlögun fer að mesta leyti fram í júní, ágúst og september. Eftir að hefðbundnum aðlögunartíma lýkur eru aðrir aðlögunartímar skoðaðir sérstaklega ef og þegar það eru laus leikskólapláss. Foreldrar eru hvattir til þess að sækja tímanlega um leikskólapláss og einnig ef þeir sjá fram á breytingar á þeim vistunartímum sem börn þeirra eru nú með.

Konudagskaffi í leikskólanum

Í tilefni af Konudeginum 24. febrúar s.l. buðum við þeim kvenmönnum sem skipa stóran sess í lífi barnanna í konudagskaffi föstudaginn 22. febrúar.

Dagur leikskólans 6. febrúar

Við héldum upp á Dag leikskólans 6. febrúar. Fyrir hádegi teiknuðu nemendur á Ási og Nesi myndir sem þau færðu næstu nágrönnum okkar með kærri kveðjur frá leikskólanum. Eftir hádegi voru fjölbreytt stærðfræðitengd verkefni í flæðivalinu, en Dagur stærðfræðinnar var einmitt 1. febrúar. Við lukum deginum með opinni söngstund sem margir sáu sér fært að taka þátt í með okkur.

Þorrablót á bóndadaginn

Á bóndadaginn 25. janúar bjóða nemendur leikskólans þeim karlmönnum sem skipa stóran sess í lífi þeirra á ,,þorrablót?. Opið hús verður á milli kl. 15 og 16 þennan dag þar sem boðið verður upp á þorramat og leiksvæði um allt hús. Þau börn sem eru venjulega ekki í leikskólanum á þessum tíma eru auðvitað velkomin með sínum mönnum.

Jólakveðja

Bestu jóla- og nýárskveðjur frá nemendum og starfsfólki Leikskólans í Stykkishólmi

Litlu jólin og helgileikurinn

Í morgun voru litlu jólin í leikskólanum. Haldið var í gamlar hefðir og hófst dagskráin með helgileik elstu nemenda okkar. Síðan fengum við þá Villa og Matta sem báðir eru í foreldrahópi leikskólans til að spila fyrir dansi í kringum jólatréð og að lokum komu fjórir jólasveinar sem færðu börnunum gjafir. Við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur að gera daginn skemmtilegan. Myndin af helgileiksbörnum var tekin á æfingu í gær. Fleiri myndir frá litlu jólunum og helgileiknum munu koma inn síðar.

Gjöf frá Lionsklúbbi Stykkishólms til leikskólans

Fulltrúar Lionsklúbbs Stykkishólms þeir Ríkharður Hrafnkelsson formaður og Þorsteinn Kúld Björnsson komu færandi hendi í leikskólann á dögunum með gjafabréf upp á kr. 250.000,- til kaupa á tækjum og tólum fyrir nemendur okkar, í tilefni 60 ára afmælis leikskólans á síðasta ári. ,,Er það von Lionsfélaga að þessi gjöf komi til með að styrkja og efla starfssemi skólans og bæta aðstöðuna fyrir nemendur og kennara" eins og fram kemur í gjafabréfinu. Við þökkum Lionsklúbbi Stykkishólms kærlega fyrir höfðinglega gjöf og munum nú leggjast yfir það að ákveða hvernig henni verður best varið.

Heimsókn í jólagarðinn hjá Ellu Kötu

Á þriðjudaginn þáðum við boð frá nágrönnum okkar henni Ellu Kötu og börnum um að koma að skoða jólaljósin hjá þeim, en húsið er mjög fallega skreytt bæði að utan sem innan. Þangað fóru börnin í nokkrum hópum og hittu fyrir jólasvein, fengu mandarínur og áttu góða stund við að skoða allt það fallega sem fyrir augun bar. Við þökkum þeim mæðgum Ellu Kötu og Gróu fyrir góðar móttökur.